Condoleezza Rice
Condoleezza Rice — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is BANDARÍKJAMENN hafa tjáð stjórnvöldum í Pakistan að þau verði að sýna fullkominn vilja til samstarfs í rannsókninni á hryðjuverkunum í Mumbai í Maharashtra-ríki á Indlandi.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

BANDARÍKJAMENN hafa tjáð stjórnvöldum í Pakistan að þau verði að sýna fullkominn vilja til samstarfs í rannsókninni á hryðjuverkunum í Mumbai í Maharashtra-ríki á Indlandi. „Ég vil ekki sjálf hrapa að ályktunum en tel að nú verði gegnsæi að vera algert og undanbragðalaust og samstarfsviljinn takmarkalaus, við væntum þess að svo verði,“ sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Ástandið í Mumbai er að færast á ný í samt lag. Átökin stóðu í þrjá sólarhringa og liggja að minnsta kosti 172 í valnum, þar af 19 útlendingar. Mikil reiði og tortryggni ríkir nú á Indlandi vegna árásanna en allir ódæðismennirnir voru frá Pakistan.

Utanríkisráðuneytið í Nýju-Delí kallaði í gær sendiherra Pakistans á sinn fund og var honum sagt að Indverjar „væntu þess að gripið yrði til öflugra aðgerða gegn þessum öflum“ [hryðjuverkahópum]. Sjálfir neita Pakistanar allri sök og vara við því að láta hryðjuverkahópa æsa til gagnkvæms þjóðahaturs.

Stjórnvöld í Mumbai hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir að vera illa undirbúin árásum og hafa brugðist seint og illa við. Innanríkisráðherra Indlands hefur þegar sagt af sér vegna árásanna. Forsætisráðherra sambandsríkisins Maharashtra, Vilasrao Deshmukh, hefur einnig boðist til að segja af sér.

Auðkýfingur og glæpaforingi

Fram hefur komið í yfirheyrslum yfir eina árásarmanninum sem komst lífs af, Amir Kasab, að glæpaforinginn og auðkýfingurinn Dawood Ibrahim hafi gefið skipun um árásina, að sögn indversku fréttastofunnar PTI .

Ibrahim, sem er fæddur í Indlandi og múslími, býr í Persaflóaríkinu Dubai. Hann rekur þaðan öflugt glæpamannanet og er að sögn Aftenposten mikill áhrifamaður í indverskum kvikmyndaiðnaði.