Hólmfríður Magnúsdóttir
Hólmfríður Magnúsdóttir — Morgunblaðið/Ómar
ÍSLAND og Holland mætast í vináttulandsleik kvenna í knattspyrnu hinn 23. apríl í vor og fer leikurinn fram í knattspyrnuhúsinu Kórnum í Kópavogi.

ÍSLAND og Holland mætast í vináttulandsleik kvenna í knattspyrnu hinn 23. apríl í vor og fer leikurinn fram í knattspyrnuhúsinu Kórnum í Kópavogi. Þetta verður fyrsti kvennalandsleikurinn þar en Ísland og Færeyjar mættust í karlalandsleik í Kórnum í mars á þessu ári.

Áður hefur íslenska liðið leikið landsleiki í Egilshöllinni, bæði gegn Skotlandi og Noregi.

Leikurinn er liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins sem hefst í Finnlandi hinn 23. ágúst. Þar með er ljóst að liðið leikur a.m.k. sex leiki til undirbúnings fyrir keppnina.

Þetta verður sjötti landsleikur Íslands og Hollands. Íslenska liðið sigraði það hollenska 2:1 heima og 1:0 úti í undankeppni EM árin 1993 og 1994, og aftur 2:0 heima og 2:0 úti í sömu keppni árin 1995 og 1996. Holland sigraði aftur á móti, 2:1, þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í Hollandi í apríl 2006. Þá skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir mark Íslands.

Holland tekur líka þátt í úrslitakeppni EM í Finnlandi og er þar í riðli með Dönum, Finnum og Úkraínu. Hollenska liðið er í 20. sæti á heimslista FIFA, tveimur sætum fyrir neðan Ísland, og í þrettánda sæti af Evrópuþjóðum.

Þar með leikur íslenska liðið að minnsta kosti sex leiki fyrir EM, fjóra í Algarve-bikarnum í mars, og svo er bókaður vináttulandsleikur við Dani á útivelli hinn 19. júlí. vs@mbl.is