VIÐ Háskólann á Akureyri hefur verið myndaður starfshópur um nýsköpun og velferð þar sem lögð er áhersla á að virkja hið mikla hugvit sem háskólinn býr yfir til góðs í efnahagsástandinu sem nú ríkir.

VIÐ Háskólann á Akureyri hefur verið myndaður starfshópur um nýsköpun og velferð þar sem lögð er áhersla á að virkja hið mikla hugvit sem háskólinn býr yfir til góðs í efnahagsástandinu sem nú ríkir. Eitt af þeim verkefnum sem hefur verið komið á koppinn fyrir tilstuðlan hópsins er „Háskóli fólksins“ sem svo er kallaður.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að sérfræðingar Háskólans á Akureyri séu aðgengilegir almenningi til ráðgjafar og fræðslu.

Nú hefur verið opnuð sérstök vefsíða á heimasvæði háskólans, sem ber einmitt heitið Háskóli fólksins en í gegnum þessa síðu getur almenningur til dæmis sent inn fyrirspurnir sem sérfræðingar HA sjá um að svara.

Hugmyndir þróaðar

Á vefsíðunni má einnig finna yfirlit yfir fjölmargar nýsköpunarhugmyndir sem starfsfólk HA hefur fundið upp á og er vinna þegar hafin með margar þeirra. Hugmyndirnar eru að sögn rúmlega 100.

Almenningi gefst einnig kostur á að senda inn nýsköpunarhugmyndir í gegnum vefsíðuna sem starfsfólk HA gæti unnið áfram með.

Þá eru birtar greinar eftir sérfræðinga háskólans á þessari vefsíðu sem og dagkrá fyrirlestra sem fyrirhugaðir eru í miðbæ Akureyrar á vegum Háskóla fólksins og samstarfsaðila. Verkefninu var hrundið af stað við HA til þess að veita almenningi greiðari aðgang að sérfræðingum skólans.

Í háskólanum starfar fólk á sviði auðlindafræða, viðskiptafræða, heilbrigðisvísinda, félagsvísinda, lögspeki og kennarafræða. Í gegnum heimasíðuna er hægt að senda inn fyrirspurnir sem birtast nafnlaust og sérfræðingar Háskólans á Akureyri sjá um að svara þeim og vilja skólayfirvöld hvetja fólk til þess að nýta sér þetta tækifæri og senda inn fyrirspurnir sem varða það ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

„Einnig þiggjum við með þökkum þær hugmyndir sem fólk hefur um það hvernig háskólinn geti komið til aðstoðar, til dæmis á sviði nýsköpunar. Ef fólk lumar á hugmyndum sem það telur að starfsfólk HA geti unnið með má senda þær inn í gegnum fyrirspurnakerfið.“

Skv. upplýsingum skólans hefur þegar farið fram mikil vinna á sviði nýsköpunar og er vinna hafin við það að þróa ýmsar hugmyndir sem fram hafa komið. „Sumar eru komnar langt á leið, aðrar skemur. Við hvetjum einnig starfsfólk háskólans til að halda uppteknum hætti og senda inn fleiri nýsköpunarhugmyndir,“ segir á heimasíðu skólans.

Vert er að geta þess að til stendur að bjóða upp á fyrirlestra með sérfræðingum háskólans í miðbæ Akureyrar einu sinni í viku fram til jóla.

http://www.unak.is/?d=20&m=forsida