Margvísleg verðmæti felast í íslenskri náttúru. Sú staðreynd hefur komið betur í ljós síðustu ár í kjölfar opinberrar umræðu um æskilegt jafnvægi milli nýtingar og verndar náttúrunnar. Það var mikilvæg vitundarvakning fyrir almenning.

Margvísleg verðmæti felast í íslenskri náttúru. Sú staðreynd hefur komið betur í ljós síðustu ár í kjölfar opinberrar umræðu um æskilegt jafnvægi milli nýtingar og verndar náttúrunnar. Það var mikilvæg vitundarvakning fyrir almenning.

Í upphafi efnahagsþrenginga, þegar við viljum spyrna hraustlega við fótum, hættir okkur til að gleyma þessum áfanga. Við einblínum um of á þau augljósu verðmæti sem fást með nýtingu auðlinda hafsins, fallvatna og jarðvarma. Það geta verið eðlileg viðbrögð í óvissuástandi að kalla á meiri framleiðslu. Hins vegar er æskilegt að sú framleiðsla sé sjálfbær og gangi ekki á rétt komandi kynslóða til að njóta sömu gæða og við gerum. Verndun er ein birtingarmynd nýtingar.

Auðlind – Náttúrusjóður var formlega stofnaður í gær á fullveldisdaginn í þeim tilgangi að standa vörð um auðlindir, lífsgæði og fjölbreytni íslenskrar náttúru. Starfsemi sjóðsins byggist á frjálsum framlögum og frumkvæði einstaklinga og fjárstuðningi fyrirtækja og ríkis. Meðal verkefna sjóðsins er verndun votlendis og íslenska hafarnarins.

Ástæða er til að fagna þessu framtaki og þeim aðferðum sem forsvarsmenn sjóðsins hyggjast beita fyrir málstað sinn. Nota á hagræna hvata til að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir, hvort sem stjórnvöld eða einstaklingar eiga í hlut. Fulltrúar Auðlindar – Náttúrusjóðs ætla sjálfir að hafa frumkvæði að frjálsum samningum við landeigendur og aðra um ýmislegt er varðar nýtingu og vernd náttúrunnar.

Þannig er umræðunni um náttúruvernd kippt upp úr hjólförum átaka og meiri líkur á friðsamlegri sátt um þetta mikilvæga mál.