Fulltrúar Íslands Auður Ólafsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir.
Fulltrúar Íslands Auður Ólafsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir.
ÞÆR Auður A. Ólafsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir voru tilnefndar af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í gær, fyrir bækur sem komu út árið 2007.

ÞÆR Auður A. Ólafsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir voru tilnefndar af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í gær, fyrir bækur sem komu út árið 2007. Auður fyrir skáldsöguna Afleggjarinn , sem kom út hjá Sölku, en Sigurbjörg fyrir ljóðabókina Blysfarir , sem Forlagið-JPV útgáfa gaf út.

Afleggjarinn er þriðja skáldsaga Auðar, sem fædd er árið 1958. Hún er lektor í listfræði við Háskóla Íslands. Áður hafa komið út eftir hana bækurnar Upphækkuð jörð (1998), og Rigning í nóvember (2004) en hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV í bókmenntum, auk þess sem hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Afleggjarinn hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum, auk Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna. Einnig er nú unnið að gerð kvikmyndahandrits upp úr Afleggjaranum og munu bæði íslenskir og erlendir aðilar koma að gerð kvikmyndarinnar.

Afhent í Stokkhólmi

Sigurbjörg, sem er fædd árið 1973, hefur sent frá sér fjórar ljóðabækur, Blálogaland (1999), Hnattflug (2000), Túlípanaregnhlífar (2003) og To Bleed Straight , tvímálabók með þýðingum Bernards Scudders (2008). Einnig hefur Sigurbjörg sent frá sér skáldsöguna Sólar sögu (2002) og fjögur leikverk, auk fjölda blaðagreina og pistla.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent á 61. þingi ráðsins sem haldið verður í Stokkhólmi í október á næsta ári. Verðlaunaféð nemur 350.000 dönskum krónum, eða um 8 milljónum og 750 þúsund íslenskum krónum.

Íslensku dómnefndina skipa þau Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur og Aðalsteinn Ásberg rithöfundur. Varamaður er Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur.