Ásta Árnadóttir fæddist á Kúskerpi í Húnavatnssýslu 19. október 1918. Hún lést hinn 18. nóvember síðastliðinn á elliheimilinu Eir.

Frá fjögurra ára aldri ólst hún upp í Hrísey og bjó svo síðar á Siglufirði og Akranesi. Árið 1961 flutti hún til Reykjavíkur og bjó lengst af í Álfheimum. Foreldrar Ástu voru Árni Sigurðsson og Guðrún Jónasdóttir.

Hinn 22. júní 1940 giftist hún Jónasi Márussyni, f. 11.1. 1909, d 24.1. 1982. Börn Ástu og Jónasar eru: 1) Jónas Jónasson, f. 31.8. 1941, kvæntur Kolbrúnu Karlsdóttur, f. 8.5. 1943. Börn a) Sólveig Ásta Jónasdóttir, f. 14.2. 1967, maki Stefán Karl Baldursson, f. 28.6. 1964. Börn: Snæfríður Aþena og Oliver Flovent. b) Karl Márus Jónasson, f. 7.9. 1974, maki Mariuska Tejeda Alvares, f. 29.3. 1982. Börn: Javier Rico og Árni Valdimar. c) Kolbrún Ýrr Jónasdóttir, f. 16.8. 1977. 2) Guðrún Björg Jónasdóttir, f. 25.7. 1943, d. 6.3. 1945. 3) Guðrún Björg Jónasdóttir, f. 25.3. 1945. Börn a) Ásta Einarsdóttir, f. 13.12. 1967, maki Björn Óskar Björnsson, f. 28.4. 1964. Börn: Birkir Einar, Guðrún Björg og óskírður drengur. b) Jónas Páll Einarsson, f. 23.1. 1969. c) Viðar Einarsson, f. 20.9. 1971. Barn: Kristbjörg Ásta. d) Guðrún Eir Einarsdóttir, f. 3.4. 1977. Börn: Arnaldur Breki og Arnór Brim. 4) Sólveig Jónasdóttir.

Útför Ástu verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Amma Ásta, eins og við kölluðum hana jafnan, var einstaklega snaggaraleg og létt á fæti og skapið var nú ekki að skemma fyrir henni og alltaf stutt í brosið. Höfðingi var hún heim að sækja og nutum við norðanfólkið oft gestrisni hennar þegar hún bjó í Álfheimunum.

Ég kynntist Ástu fyrir um það bil 25 árum þegar ég og nafna hennar og dótturdóttir fórum að stinga saman nefjum og höfum við æ síðan verið hinir mestu mátar. Öllum þótti vænt um hana Ástu.

Þegar við hjónin eignuðumst elstu börnin okkar, Birki Einar og Guðrúnu Björgu, kom hún norður og aðstoðaði nýliðana fyrstu vikurnar og var það nú ekki slæmt, allt saman fægt og pússað svo það var sem enginn byggi í húsinu, einstakt snyrtimenni þar á ferð. Hvert ár kom hún norður og dvaldi á Akureyri hjá okkur eða Guðrúnu dóttur sinni sem bjó þá þar. Hún sleit aldrei hinar norðlensku rætur, skrapp til Hríseyjar og Siglufjarðar þar sem dóttir hennar liggur grafin og heilsaði upp á vini og kunningja.

Margar skemmtilegar minningar eigum við um hana á ferðalögum hér heima og erlendis sem eru svo mikilvægar á stundum eins og nú þegar við kveðjum ömmu og hlýja okkur um hjartarætur. Hennar er sárt saknað.

Megi Ásta amma hvíla í friði.

Amma þú ert minn himneski engill. Allt sem þú ert er það sem ég þrái að vera. Heimili þitt, væntuumþykja og allt það sem er gott. Faðmur þinn er ætíð opinn til að vernda okkur frá öllum meinum, hjarta þitt ætíð fullt af ást, orð þin ætíð full af vonum.

Mig langar að láta þig vita hve mikið ég kann að meta þig.

Ásta, Björn Óskar, Birkir Einar, Guðrún Björg

og nýfæddur sonur.