Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur gag@mbl.is LÍFSSPURSMÁL er fyrir fyrirtækið Verne Holding að reglur um gjaldeyrisviðskiptin verði endurskoðaðar.

Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur

gag@mbl.is

LÍFSSPURSMÁL er fyrir fyrirtækið Verne Holding að reglur um gjaldeyrisviðskiptin verði endurskoðaðar. Fulltrúar viðskiptaráðuneytis, Seðlabanka og stjórnarformaður CCP og Verne Holding ætla að funda og fara yfir hvernig nýju reglurnar hamla fyrirtækjum. Seðlabankinn setti reglurnar fyrir helgi á grundvelli nýrra laga frá Alþingi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður tölvuleikjaframleiðandans CCP og Verne Holding sem byggir gagnaver á Vellinum, er uggandi um framtíð fyrirtækjanna. „Það er mín skoðun að þessar reglur eins og þær eru hafi svo víðtæk, ófyrirséð áhrif að veruleg hætta sé á að þær séu verri en sjúkdómurinn sem þær eiga að lækna.“

Vilhjálmur nefnir sem dæmi að Verne Holding geri upp í dollurum. Stefnt sé að því að framkvæma fyrir erlent hlutafé en það sé bannað samkvæmt nýju reglunum. Erfitt verði að telja fjárfesta á að koma hingað til lands, hræðist þeir að festast með féð hér á landi. Takist ekki að semja við þá geti fyrirtækið hvorki reist gagnaverið né staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Danice-sæstrengnum.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, segir að skilja verði á milli langanna og reglnanna sem settar hafi verið í kjölfarið. „Fyrir okkur vakir ekkert annað en að koma í veg fyrir gengishrun, styrkja stöðu krónunnar og tryggja gjaldeyrisforðann.“ Hann segir að vandamálin séu til að leysa þau. „Við sögðum strax fyrir helgina að kæmi í ljós að reglurnar hefðu einhver alvarleg áhrif yrði að sjálfsögðu leitast við að endurbæta þær.“