Eftir Björgvin Guðmundsson bjorgvin@mbl.is GAMLI Glitnir var með fullt fangið af hlutabréfum í sjálfum bankanum og FL Group síðasta haust. FL Group greiddi með hlutabréfum í sjálfu sér þegar félagið tók yfir Tryggingamiðstöðina í september 2007.

Eftir Björgvin Guðmundsson

bjorgvin@mbl.is

GAMLI Glitnir var með fullt fangið af hlutabréfum í sjálfum bankanum og FL Group síðasta haust.

FL Group greiddi með hlutabréfum í sjálfu sér þegar félagið tók yfir Tryggingamiðstöðina í september 2007. Við það fór eignarhlutur Glitnis í FL Group úr 3,25% í 13,80%.

Næstu vikurnar á eftir áttu starfsmenn bankans fundi með fjárfestum, sem Morgunblaðið ræddi við í gær, sem var boðinn þessi hlutur í FL til sölu. Kaup og kjör voru áþekk þeim sem viðgengust í Stím-viðskiptunum; einungis þurfti að leggja fram 20% eigið fé og afganginn var hægt að fá að láni með veði í sjálfum hlutabréfunum.

Nokkur fjöldi hlutabréfa í Glitni safnaðist upp á svipuðum tíma í veltubók bankans. Tveir stjórnendur gamla Glitnis, sem ekki vildu koma fram undir nafni, segja að tilgangurinn hafi verið að safna bréfum í bankanum fyrir viðskiptavin. Þegar á hólminn var komið gat viðskiptavinurinn ekki staðið við þann samning. Bankinn sat þá sjálfur uppi með hlutabréfin.

Það var ekki ætlun stjórnenda Glitnis að eiga stóra hluti í sjálfum bankanum eða í FL Group samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Á þeim tíma vaknaði sú hugmynd að setja bréfin í sérstakt félag og selja það áfram til fjárfesta. Þá var félagið Stím stofnað og það svo selt áfram til fjárfesta.

Reglur heimila skráðum félögum að eiga að hámarki 10% í sjálfu sér. Fjármálaeftirlitið fylgist með að fjármálafyrirtæki fari eftir þessum reglum. Í byrjun nóvember réð Glitnir yfir 6,15% hlutafjár í bankanum í gegnum GLB Hedge og 4,16% voru skráð á sjálfan bankann. 14. nóvember var svo tilkynnt um viðskipti með bréf í FL Group og Glitni fyrir samtals 24,8 milljarða króna. Félagið FS37 ehf., sem síðar var breytt í Stím, keypti hlutina og eignaðist 4,3 prósenta hlut í Glitni og 4,1% í FL Group.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að þar sem gamli Glitnir sé ekki lengur aðili að Kauphöllinni og þessi viðskipti í skoðun hjá FME muni starfsfólk Kauphallarinnar ekki skoða þetta mál nánar. Það muni hins vegar aðstoða ef þess gerist þörf.

Í hnotskurn
» Gamli Glitnir átti sjálfur 32,5% í Stími sem ekki tókst að selja til fjárfesta.
» Skilanefnd Glitnis segir að FME telji að reglur um tilkynningarskyldu hafi ekki verið brotnar.
» Félagið Stím er samt enn til skoðunar hjá FME og Kauphöllin fylgist með.