EIÐUR Guðnason sendiherra fær sennilega á baukinn fyrir þarfa Morgunblaðsgrein. Ósigur íslensku þjóðarinnar árið 2008 skekur okkur öll að grunni og veldur breytingum sem enn sér ekki fyrir endann á.
EIÐUR Guðnason sendiherra fær sennilega á baukinn fyrir þarfa Morgunblaðsgrein. Ósigur íslensku þjóðarinnar árið 2008 skekur okkur öll að grunni og veldur breytingum sem enn sér ekki fyrir endann á. Ólafur Ragnar færir sér þetta í nyt enda hefur hann enga ró í sínum beinum nema hann sé á stöðugum andlegum og líkamlegum spretti. Grein Eiðs er beitt. En hvort hún skilar tilætluðum árangri er önnur saga. Ósk Eiðs um að öll tvímæli verði tekin af um hvað var sagt í sendiherraboði verður að öllum líkindum áfram óskin ein. Eiður skrifar um háttalag manns sem fær útrás í linnulausum athöfnum. Ólafur Ragnar er í látlausu kapphlaupi við sjálfan sig. Hann er sívinnandi og sítalandi og er pottur og panna í hverju búri. Á Íslandi er ofvirkjum og útrásarvíkingum eins og Ólafi Ragnari tekið tveimur höndum því íslenska þjóðin hefur velþóknun á hraða Ólafs Ragnars, atorku hans og snöggum viðbrögðum. Ólafur Ragnar ann sér aldrei hvíldar. Áreynslulaust lætur Ólafur Ragnar staðreyndir ekki spilla leiftrandi frásögnum og fyrirhafnarlaust aðhyllist Ólafur Ragnar andstæð viðhorf og stefnur. Það er því ekki ráðlegt að knýja Ólaf Ragnar til svara. Eðlislæg órökvís hugsun fagnar meintum ummælum Ólafs Ragnars. Óbrotin alþýðutrú segir að Ólafur Ragnar sé það hjálpræðisvald sem Ísland nú þarf. Ólafur Ragnar finnur að hann er í trúnaðarsambandi við þann hluta þjóðarinnar, sem finnst hann vera nánast hjartfólginn frændi eins og hinn mikli stýrimaður Maó.

Höfundur er fv. forsetaritari.