Aðventan Það hýrnar yfir háum og lágum þegar jólaljósin fara að lýsa upp skammdegið.
Aðventan Það hýrnar yfir háum og lágum þegar jólaljósin fara að lýsa upp skammdegið. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is OFT var þörf en nú er nauðsyn. Íslendingum verður seint legið á hálsi fyrir að hundsa ljósaskreytingarnar á aðventunni og hefur sjaldan verið meiri þörf á að lýsa upp skammdegið en nú.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

OFT var þörf en nú er nauðsyn. Íslendingum verður seint legið á hálsi fyrir að hundsa ljósaskreytingarnar á aðventunni og hefur sjaldan verið meiri þörf á að lýsa upp skammdegið en nú.

Um helgina fóru margir niður í kjallarageymslu eða út í bílskúr og drógu fram jólaseríurnar enda árviss viðburður að sjá jólatýrurnar kvikna í gluggum, runnum og á þakskeggjum í kring um fyrsta í aðventu. Fátt er heldur betur til þess fallið að kveikja birtu í sál og sinni en falleg jólalýsing í myrkrinu og kuldanum sem fylgir árstíðinni.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að jólaseríurnar hafa margar þann leiða vana að neita að vakna eftir vetrardvalann. Slíkt getur haft útgjöld í för með sér enda sennilega ekki margir sem draga fram lóðboltann á aðventunni til að lappa upp á gömlu seríuna, líkt og algengt var að heimilisfeður gerðu fyrir nokkrum áratugum. Hins vegar eru enn í fullu gildi einföld ráð á borð við að skipta út ónýtum perum. Slíkt er ekki bara ódýrara en að kaupa nýja seríu, heldur einnig umhverfisvænna því þá verður ekki til rusl sem þarf að farga.

Gæðin góð fyrir budduna

Þverneiti gamla serían hins vegar að virka er hægt að hugga sig við að einfaldar jólaseríur þurfa ekki að kosta mikið þó þær verði dýrari eftir því sem íburðurinn í þeim er meiri. Að auki er ráð að velta gæðunum fyrir sér til að forðast útgjöld að ári, eða jafnvel pirring við að fá ljósin í gang.

Vissulega bætist svo einhver kostnaður við lýsinguna sjálfa, þ.e. rafmagnið sem þarf til að keyra seríurnar. En eins og meðfylgjandi dæmi frá Orkuveitu Reykjavíkur sýna er sá kostnaður ekki líklegur til að bylta heimilisbókhaldinu, nema ljósagleðin sé þeim mun meiri hjá fólki.

Hvað kostar birtan?

» Það kostar 4,40 krónur á dag að keyra útiseríu með 80 ljósaperum sem eru 0,25 w hver. Á tímabilinu frá 1. desember til 6. janúar er kostnaðurinn við seríuna því 162,50 krónur.

» Rafmagnið fyrir inniseríu með 100 ljósaperum sem eru 0,35 w hver, kostar 7,70 krónur daglega. Kostnaðurinn er því 284 krónur frá 1.desember til 6. janúar.

» Nýjungar í jólaljósum, á borð við díóðu- og ljósakvistaseríur hafa mælst vel fyrir en ekki liggja fyrir tölur um kostnað við að keyra þær. Gera má ráð fyrir því að hann sé jafnvel minni en við hefðbundnar seríur þar sem slík ljós þurfa afar litla orku.