Veiðar Síldin er ekki söluvænleg um þessar mundir og er því landað til bræðslu.
Veiðar Síldin er ekki söluvænleg um þessar mundir og er því landað til bræðslu. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is ÁKVEÐIÐ hefur verið að flýta síldarrannsóknarleiðangri á rannsóknarskipinu Dröfn vegna sýkingar í síld. Auk hefðbundinna bergmálsmælinga verður reynt að afla upplýsinga um útbreiðslu sýkingarinnar í síldargöngum.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

ÁKVEÐIÐ hefur verið að flýta síldarrannsóknarleiðangri á rannsóknarskipinu Dröfn vegna sýkingar í síld. Auk hefðbundinna bergmálsmælinga verður reynt að afla upplýsinga um útbreiðslu sýkingarinnar í síldargöngum. Kom það fram á samráðsfundi vísindamanna og fulltrúa útgerðar og vinnslu í gær.

„Auðvitað er þetta mikið áfall fyrir okkur á miðri vertíðinni, þegar vel gekk með veiðarnar og vel hefur gengið að selja. Þetta er það síðasta sem við gátum hugsað okkur,“ sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. Hann sagði að sýkingin hefði áhrif á tekjur sjávarútvegsins en sagði ekki vitað hversu mikil.

Hann sagði mikilvægt að afla meiri gagna til að átta sig á umfangi sýkingarinnar og hvaða afleiðingar hún hefði. Sjómenn hafa safnað sýnum fyrir Hafró af veiðislóð og segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs, að því verði haldið áfram. Senda átti Dröfn til síldarrannsókna í næstu viku en vegna þessa ástands hefur verið ákveðið að flýta því og fer skipið líklega af stað á föstudagsmorgun. Hugsanlega verður nótarskip til aðstoðar.

Vísindamenn óttast að sýkingin geti valdið hruni í síldargöngum í Breiðafirði. Sjávarútvegsráðherra lagði á það áherslu að sýkingin gerði síldina ekki óhæfa til manneldis en hins vegar væri hún ekki söluvænleg. Útgerðarmenn voru að fara yfir málin í gær og velta fyrir sér framhaldi veiðanna. Virtust flestir stefna skipunum til hafnar, til löndunar í bræðslu.

Alvarlegur | 14