[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spánarmeistarar Real Madrid hafa náð samkomulagi við Ajax um kaup á hollenska landsliðsmanninum Klaas Jan-Hutelaar .

Spánarmeistarar Real Madrid hafa náð samkomulagi við Ajax um kaup á hollenska landsliðsmanninum Klaas Jan-Hutelaar . Frá þessu greindu spænskir fjölmiðlar í gær og mun framherjinn sterki ganga í raðir Madridarliðsins þegar opnað verður fyrir félagaskipti um næstu mánaðamót.

Hutelaar , sem er 25 ára gamall, hefur verið orðaður við mörg stórlið en hann hefur skorað 75 mörk í 90 leikjum með Ajax og hann verður gjaldgengur með Spánarmeisturunum þegar keppni hefst í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Cintamani stigamótið í borðtennis fór fram í íþróttahúsi TBR á sunnudag. Víkingurinn Magnús K. Magnússon sigraði félaga sinn Sigurð Jónsson í úrslitaleik karla, en Sigrún E. Tómasdóttir , KR , bar sigurorð af Sunnu Jónsdóttur , ÍFR , í kvennaflokki.

Sigmundur Herbertsson , körfuboltadómari heldur áfram að fá úthlutaða leiki frá FIBA en hann mun dæma þrjá leiki í þessum mánuði sem allir fara fram í Frakklandi . Fyrst leik franska liðsins Cholet Basket og Benetton Olympic frá Sviss í Evrópubikar karla þann 16. desemer. Þann 17. desember dæmir hann leik franska liðsins Bourge Basket og Mizo Pécs í Meistaradeild kvenna og þriðji leikurinn er daginn eftir en það er viðureign Tarbes frá Frakklandi og Bascget ICIM frá Rúmeníu í Evrópubikar kvenna.

Slobodan Subasic lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Snæfell á þessari leiktíð þegar liðið mætti Grindavík í gærkvöldi. Subasic lék á dögunum gegn KR í bikarkeppninni en var á sjúkralistanum í upphafi leiktíðar vegna hnémeiðsla. Subasic lék með Snæfelli á síðustu leiktíð en hafði félagaskipti í sumar yfir í Njarðvík sem sagði síðan upp samningi hans í haust.

Ingvaldur Magni Hafsteinsson lék hins vegar ekki með Snæfellingum í leiknum þar sem hann er í prófum í Lögregluskóla ríkisins.

Helgi Reynir Guðmundsson hefur ákveðið að taka fram skóna og leika með Snæfelli í vetur. Helgi er 28 ára gamall og hefur leikið allan sinn feril með Hólmurum fyrir utan eitt tímabil þar sem hann var í herbúðum KR .

Helgi tók sér frí frá körfuboltanum á síðustu leiktíð en ákvað í haust að taka fram skóna. Helgi hefur hins vegar ekki verið leikfær enn sem komið er þar sem hann er með tognun í liðbandi í hné.

Kieron Dyer , miðjumaðurinn sem er á mála hjá Íslendingaliðinu West Ham , vonast til að geta byrjað að leika með liðinu að nýju í jólatörninni en Dyer hefur verið frá keppni í 15 mánuði. Dyer, sem er 29 ára gamall, fótbrotnaði illa í leik gegn Bristol Rovers í deildabikarnum í ágúst 2007 en skömmu áður hafði hann gengið í raðir liðsins frá Newcastle .