Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
JÓHANNA Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hlaut í gær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og stjórnarmaður í sjóðnum, afhenti Jóhönnu verðlaunin.

JÓHANNA Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hlaut í gær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og stjórnarmaður í sjóðnum, afhenti Jóhönnu verðlaunin. Þá var einnig úthlutað styrkjum til málefna er varðar börn fyrir alls um 8 milljónir króna.

Hlýtur Jóhanna verðlaunin fyrir framlag sitt til íslenskra barnafjölskyldna fyrr og nú. Jóhanna tók við veglegum verðlaunagrip úr silfri eftir Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið.

Í gær var einnig úthlutað styrkjum úr styrktarsjóði Velferðarsjóðs barna. Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd hlutu hvort um sig tvær milljónir króna sem ætlað er að kaupa föt og jólaglaðning fyrir börn. Foreldrahús hlaut einnig styrk en það vinnur með börnum og foreldrum sem hafa átt við erfiðleika að stríða, líkt og einelti eða fíkniefnaneyslu. Þá hlaut m.a. Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur sem eru að koma úr meðferð, styrk.

Frá því Velferðarsjóður barna var stofnaður af Íslenskri erfðagreiningu fyrir átta árum hefur sjóðurinn úthlutað meira en 450 milljónum króna til margvíslegra verkefna.