Eins stór og símaskráin Bóndi, oddviti, fræðimaður og rithöfundur: Jón Eiríksson í Vorsabæ með fyrsta eintakið af Jarðabók Skeiðahrepps.
Eins stór og símaskráin Bóndi, oddviti, fræðimaður og rithöfundur: Jón Eiríksson í Vorsabæ með fyrsta eintakið af Jarðabók Skeiðahrepps. — Ljósmynd/Gunnar Sigurgeirsson
Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.is MEÐAL jólabókanna í ár verður Jarðabók Skeiðahrepps. Reyndar ekkert venjuleg jólabók því um er að ræða 608 blaðsíðna ritverk sem hefur að geyma lýsingu á jörðum, örnefnaskrá og ábúendatal í Skeiðahreppi.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

MEÐAL jólabókanna í ár verður Jarðabók Skeiðahrepps. Reyndar ekkert venjuleg jólabók því um er að ræða 608 blaðsíðna ritverk sem hefur að geyma lýsingu á jörðum, örnefnaskrá og ábúendatal í Skeiðahreppi. Einnig er sagt frá fornum leiðum um Skeið og Flóa til Eyrarbakka. Höfundurinn er Jón Eiríksson í Vorsabæ, sem í fjörutíu ár var oddviti Skeiðahrepps og fagnar nú, 87 ára að aldri, útkomu ritverks sem hann hóf að vinna að fyrir 63 árum.

Bókin er prentuð í Indlandi og er Jón í Vorsabæ kominn með sýniseintök í hendur. „Það var gaman að fá fyrstu eintökin, en ég þekkti þetta svo sem allt eftir að hafa farið yfir prófarkir með útgefandanum, og lagað og leiðrétt endalaust.“ Upphafið að þessu verki má rekja aftur til ársins 1945 er Ungmennafélag Skeiðamanna fékk Jón til að safna örnefnum í sveitinni, skrásetja þau og setja á kort. „Þá vann ég að í þessu 2-3 ár og lauk verkinu að mestu. Ég var hins vegar aldrei ánægður með þetta svo ég tók málið upp aftur seinna og það var síðan upp úr 1990 að ég gat fengið loftmyndir af jörðum í sveitinni. Þá fór ég um með kort sem ég hafði útbúið og færði örnefnin inn á það eftir fyrirsögn bænda og skrifaði jafnframt lýsingu á jörðunum. Nú er bókin að koma út, álíka stór og símaskráin og í henni 500 ljósmyndir, sem ég hef tekið,“ segir Jón. Hann hefur tekið mikið af ljósmyndum, en fyrstu myndirnar tók hann árið 1941. Í safninu eru yfir 10 þúsund myndir og hefur Jón alla tíð reynt að flokka það og skrá.

„Ég held að það sé áhugi fyrir þessari bók hér í sveitinni og í nágrannasveitunum. Svo hafa margir brottfluttir áhuga á sinni gömlu heimabyggð og eflaust ætla margir að gefa hana í jólagjöf,“ segir Jón. Aðspurður hvort hann sé enn að grúska, segist hann vera orðinn heldur latur og nú sé aðalvinnan að koma skikki á myndasafnið eftir bókaútgáfuna. „Svo eru alls konar krankleikar að hrjá mann, en það eru góðir læknar í Laugarási sem halda mér gangandi,“ sagði Jón Eiríksson í Vorsabæ að lokum.