<strong> Samhentar Systurnar Sigurlína og Guðrún Tryggvadætur stofnuðu alþjóðlegt fræðasetur í Bárðardal. </strong>
Samhentar Systurnar Sigurlína og Guðrún Tryggvadætur stofnuðu alþjóðlegt fræðasetur í Bárðardal. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Eftir Atla Vigfússon Þingeyjarsveit | „Við vorum undrandi yfir hugmyndinni en hún var svolítið geggjuð og það tók okkur hálfan mánuð að melta hana,“ segir Sigurlína Tryggvadóttir landfræðingur í Svartárkoti um það að stofna þar alþjóðlegt...

Eftir Atla Vigfússon

Þingeyjarsveit | „Við vorum undrandi yfir hugmyndinni en hún var svolítið geggjuð og það tók okkur hálfan mánuð að melta hana,“ segir Sigurlína Tryggvadóttir landfræðingur í Svartárkoti um það að stofna þar alþjóðlegt kennslu- og fræðasetur á háskólastigi. Systir hennar, Guðrún Tryggvadóttir kennari, tekur undir það að hugmyndin hafi verið stór en bætir við að þær systur vilji vinna að verkefnum sem byggist á sérstöðu svæðisins sem geri sögu og menningu sýnilega og því hafi þeim líkað hugmyndin vel.

Fræðasetrið hefur þegar hafið starfsemi en upphaflega var það Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri Reykjavíkurakademíunnar, sem kom með þessa hugdettu sem hefur þróast og er nú orðin að veruleika. En að hugmyndavinnunni kom fjöldi aðila svo sem frá Rannsóknamiðstöð ferðamála, Þekkingarsetri Þingeyinga, Háskólanum á Hólum, Háskólasetrinu á Höfn, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og fleiri fræðimönnum á sviði hug- og náttúruvísinda.

Áhersla á landfræði, landbúnað og menningu

Ætlunin er að húsa upp í Svartárkoti fyrir fræðasetrið en meðan það er ekki búið eru námskeiðin haldin í Kiðagili en þar var áður Barnaskóli Bárðdæla.

„Við hugsum þetta aðallega fyrir erlenda stúdenta og erum með tilbúin námskeið sem skipulögð eru af starfsmönnum verkefnisins en einnig eru námskeið útfærð í samráði við þá háskóla sem senda nemendur hingað. Við fáum þekkta fyrirlesara og sérfræðinga til landsins til að kenna á námskeiðunum. Það er t.d. sterk hefð fyrir því að landfræðinemar fari í námsferðir sem þessar,“ segir Guðrún sem ásamt Sigurlínu skipuleggur dvöl stúdentanna í samráði við Reykjavíkurakademíuna og kennara hópanna.

Aðaláherslan er á landfræði, landbúnaðarsögu og menningu og eru sett upp níu daga námskeið. Krafa er gerð um að undirbúningur háskólanna erlendis sé góður og ritgerðavinna fari fram þegar heim kemur enda er námið metið til eininga.

Gjaldeyrisskapandi starfsemi

Þær systur segja að útinámið fari ekki einungis fram í Bárðardal heldur sé nýtt menning og umhverfi héraðsins. Í því sambandi má nefna að háskólanemar frá Skotlandi sem voru hér sl. sumar fóru víða. Þar má nefna hvalaskoðun frá Húsavík, skoðunarferð um Tjörneslögin, rannsóknaferðir í Jökulsárgljúfur og Mývatnssveit auk fleiri staða til þess að vinna að verkefnum. Þær Guðrún og Sigurlína segja að þessir háskólar borgi vissa upphæð á hvern nemanda en oft eru erlendir háskólar með ákveðið styrkjakerfi og geta þannig fjármagnað svona námsferðir. Með þessu fást að þeirra sögn miklar tekjur inn í héraðið því háskólar þessir kaupa akstur, gistingu og mat af ferðaþjónustunni fyrir utan aðrar greiðslur sem tengjast dvöl þeirra.

Vilja fjölga fólki og hafa mörg járn í eldinum

Það ríkir bjartsýni um framhaldið en strax í apríl nk. er von á háskólastúdentum frá Kanada í námsferð og vel lítur út með sumarið. Markmiðið er að gera þetta að öflugri starfsemi og renna undir hana mörgum stoðum.

„Langtímamarkmiðið er auðvitað að fylla dalinn af ungu fólki,“ segir Guðrún, „en lykillinn að öllu er að vinna með þeim aðstæðum sem við búum við en ekki á móti þeim.“

Sigurlína tekur undir þetta en þær systur eru aðilar að Kiðagili ehf. sem rekur m.a. menningartengda ferðaþjónustu og skólabúðir fyrir grunnskólabörn svo það eru mörg járn í eldinum í fjölbreytilegu umhverfi Bárðardals og nágrennis.

Í hnotskurn
» Bárðardalur var áður fyrr talinn lengsti dalur landsins. Náði hann frá Mjóadal í suðri og alla leið norður að botni Skjálfandaflóa. Bárðardalur kemur við sögu í frásögn af Gnúpa-Bárði í Landnámabók.
» Svartárkot er innsti bær í Bárðardal og stendur í um 400 m hæð yfir sjávarmáli. Bærinn er á vesturbakka Svartárvatns, skammt frá rótum Ódáðahrauns.
» Í Svartárkoti búa systurnar Guðrún og Sigurlína ásamt fjölskyldum sínum og foreldrum. Þar er m.a. stunduð sauðfjárrækt.