Frá Páli Heiðari Jónssyni: "Í FRÉTTABLAÐINU um daginn rakst ég á frétt um að við þyrftum að greiða öllum innistæðueigendum ICESAVE-reikninganna á Bretlandi og í Hollandi þá lágmarks-fjárhæð sem tilskipun EES kveður á um, þ.e. 20.887 evrur, ef ég man rétt."

Í FRÉTTABLAÐINU um daginn rakst ég á frétt um að við þyrftum að greiða öllum innistæðueigendum ICESAVE-reikninganna á Bretlandi og í Hollandi þá lágmarks-fjárhæð sem tilskipun EES kveður á um, þ.e. 20.887 evrur, ef ég man rétt. Í sömu frétt kom einnig fram að í umræddri tilskipun væri ákvæði sem heimilaði viðkomandi ríki að undanskilja innistæður félaga, stofnana og sveitarfélaga.

Þetta virðast ráðamenn viðskiptaráðuneytisins einnig hafa vitað og kom fram í fréttinni að þáverandi viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, hefði skipað nefnd væntanlega til þess að segja ráðherra hvernig við skyldi bregðast og það sama gerði eftirmaður Jóns á ráðherrastóli.

Ekki kom fram í fréttinni hverjir nefndarmennirnir voru eða eru en þegar bankahrunið mikla dundi yfir virðist nefndin enn hafa verið að velta fyrir sér hvort sækja skyldi um fyrrgreinda undanþágu. En nú er það um seinan og geta hin ýmsu sveitarfélög eins og t.d. Kent-sýsla á Bretlandi, stofnanir eins og Lundúnalögreglan og félög eins og breska Kattavinafélagið þakkað nefndunum báðum að ógleymdum ráðherrunum fyrir að fá héðan andvirði 20.887 evra.

Af þessu tilefni langar mig að spyrja hæstvirtan bankamálaráðherra um eftirfarandi:

Hvaða þörf var á að skipa nefnd til þess að ákveða hvort sækja skyldi um undanþáguna? Af hverju treysti ráðherrann sér ekki til að ákveða slíkt sjálfur? Hver var formaður fyrri og síðari nefndarinnar og hvaða menn aðrir áttu sæti í nefndunum? Hvað héldu umræddar nefndir marga fundi um málið og hver var þóknun þeirra fyrir að láta málið daga uppi? Hve marga reikningseigendur telur ráðherrann að hér sé um að ræða og að þessi dráttur hafi kostað? Þótt sagt sé að ekki muni um einn kepp í sláturtíðinni finnst mér samt sem þessir „keppir“ skipti líka máli og minni á að safnast þegar saman kemur.

Virðingarfyllst,

PÁLL HEIÐAR JÓNSSON,

löggiltur skjalaþýðandi

og dómtúlkur.

Frá Páli Heiðari Jónssyni