Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

ÁKVÆÐI í lánasamningi Giftar fjárfestingafélags vegna kaupa á bréfum fyrir 20 milljarða í Kaupþingi í desember í fyrra gerði það að verkum að eignasafn félagsins var að mestu í höndum stjórnenda Kaupþings frá því kaupin gengu í gegn.

Eins og rakið var í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag þurfti Gift, sem stofnað var utan um eignir Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga í fyrra, að leita samþykkis Kaupþings hygðist félagið selja meira en 15 prósent af eignum sínum. Gift átti mikið af verðmætum eignum á þessum tíma en eigið fé félagsins var um 19 milljarðar þegar kaupin voru frágengin. Eignir í Kaupþingi og Exista voru verðmætastar, námu samtals um 38 milljörðum króna. Einnig var um að ræða eignir í Landsbankanum, Glitni og Straumi fyrir um 15 milljarða auk smærri hluta í öðrum félögum. Óbeinn eignarhlutur er í Icelandair í gegnum Langflug ehf., sem Gift á þriðjung í á móti FS7 sem er í eigu Finns Ingólfssonar. Samtals námu þessar eignir í lok desember í fyrra um 54 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár.

Ljóst er að Kaupþing gat í krafti áhrifa ákvæðisins í lánasamningnum haft umtalsverð áhrif á viðskipti á hlutabréfamarkaði þar sem ákvörðun um sölu á stóru eignasafni félagsins var í höndum bankans.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir kauphöllina ekki hafa haft upplýsingar um að Kaupþing hafi í raun ráðið hvernig viðskiptum var háttað með eignir Giftar. Ekki hafi verið tilkynnt að svo hafi verið í pottinn búið.

,,Þó best sé fyrir hlutabréfamarkaðinn að hafa allar upplýsingar uppi á borði til þess að hafa sem mest gagnsæi þá treysti ég mér ekki til þess að segja til um hvort það sé eitthvað óeðlilegt við þessa ráðstöfun,“ segir Þórður. Málið sé frekar í höndum Fjármálaeftirlitsins.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu sl. föstudag deildu stjórnarmenn um stefnu Giftar sl. vetur á sama tíma og eignir félagsins voru að falla í verði. Í drögunum að lánasamningi vegna kaupanna á bréfum í Kaupþingi var ekki gert ráð fyrir því að Kaupþing þyrfti að samþykkja sölu á öllum eignum umfram 15 prósent af heildareignasafni. Þórólfur Gíslason, sem var stjórnarformaður á þeim tíma sem gengið var frá kaupunum, samþykkti samninginn að lokum fyrir hönd félagsins.

Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta, segir að eitt af því sem læra megi af hruni fjármálakerfisins og hlutabréfamarkaðarins á Íslandi, sé að auka gagnsæi. ,,Það gefur auga leið að það hefði verið heppilegra ef allir fjárfestar hefðu vitað að eignir eins félags upp á nærri 60 milljarða í mörgum skráðum félögum væru í höndum Kaupþings. Þetta eru upplýsingar sem hefðu komið sér vel. En ég ætla þó ekki að dæma um hvort þessi ráðstöfun hafi á einhvern hátt verið óeðlileg. Eftirlitsstofnanir eiga að meta það.“

Eignir sem gufuðu upp

Á innan við ári urðu eignir Giftar að engu. Um mitt síðasta ár var eigið fé félagsins um 30 milljarðar króna, eignir um 60 milljarðar en skuldir um 30 milljarðar. Þá var tekin ákvörðun um að slíta Gift og skipta hlutafé milli þeirra sem rétt áttu á hlutafénu, um 50 þúsund fyrrverandi tryggingataka Samvinnutrygginga og Brunabótafélags Íslands að hluta. Frá því í júní og fram í desember í fyrra minnkaði virði eigna félagsins um ellefu milljarða. Niðursveiflan á mörkuðum hófst fyrir alvöru í október. Um mitt þetta ár var eigið fé orðið neikvætt um 1,7 milljarða. Eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir íslensku bankana þrjá hrundi eignasafnið endanlega og nema nú skuldir umfram eignir á þriðja tug milljarða króna.