Sönglög eftir Richard Strauss og óperudúettar eftir Bizet, Smetana, Wagner og Verdi. Auður Gunnarsdóttir sópran, Gunnar Guðbjörnsson tenór og Jónas Ingimundarson píanó. Laugardaginn 29. nóvember kl. 17.

ÞRÁTT fyrir drjúgt miðaverð á klassíska einsöngstónleika (3.900 kr.) var nærri uppselt í Salnum á laugardag. Má gott heita í nýáskollnu harðæri hversu margir eiga enn fyrir slíku, þótt flestir virtust reyndar komnir í þann þroskaða og kröfuharða aldurshóp sem auglýsingageirinn lætur að mestu í friði.

Annars voru tímamót á þroskaferli einmitt ein kynningarbeitan, ef marka má viðtalsgrein sama dag í Mbl. þar sem tónleikarnir voru sagðir kaflaskipti í lífi söngvaranna í átt að stærri og dramatískari hlutverkum. Fisléttasta lýríkin ku nú senn að baki. Kannski lengst hjá Gunnari Guðbjörnssyni sem stendur orðið með einn og hálfan fót í Wagner, þótt bæði – eins og á söngskrá mátti sjá – væru komin á fulla ferð í átakamestu sönglögum Richards Strauss, er hvað tæknikröfur varðar má kalla n.k. forstig að úthaldsfrekum tóndrömum Wagners.

Fyrri hlutinn samanstóð af fimm Strauss-lögum hjá hvoru, Allerseelen, Du meine Herzens Krönelein, Traum durch die Dämmerung, All mein Gedanken og Die Nacht hjá Auði Gunnarsdóttur, Ich trage meine Minne, Morgen, Heimliche Aufforderung, Freundliche Vision og Zueignung hjá Gunnari. Öll voru lögin bráðvel sungin, og þó að tónbeiting sópransins væri almennt jafnari en tenórsins þar sem enn gat vottað fyrir stirðleika á hásviði hafði Gunnar vinninginn í talsvert víðari og tjáningarríkari dýnamík með áhrifaríku pianissimo á strategískum stöðum í kærkominni andstöðu við Stentorsþróttinn. Og svo aðeins eitt dæmi sé nefnt um nafntogaða syngjandi Jónasar Ingimundarsonar á slaghörpu má geta dúnþýðra lútugripla hans í Traum... er liðu um loft líkt og vorblær í dagrenningu.

Dúettarnir fjórir eftir hlé – Parle-moi úr „Il trovatore“ (Bizet), Muttersegen úr Seldu brúði Smetönu, Bleib', Senta! úr Hollendingi Wagners og Gi -- - à nella notte densa úr „Otello“ Verdis – komu aftur á móti ekki nógu vel út og reyndust engan veginn þau tónleikastönz („showstoppers“) kvöldins sem menn bjuggust við. Að vísu söngatriði fyrir tvær persónur – en mest í formi heljarlangra recítatífa er náðu furðulitlu flugi í fjarveru jafnt lifandi hljómsveitar sem nægilega innlifaðrar leiktúlkunar og textatjáningar. Í staðinn birtust mönnum hálfgerðir húðarjálkar; langdregnir og jafnvel svæfandi á köflum. Óskiljanlegt val í annars flotta dagskrá, þar eð úr nógu er að taka af heillandi „alvöru“ sópran-tenór-óperudúettum er hefðu getað sýnt glampandi samsöng í bezta ljósi.

Uppklöppuðu aukalögin íslenzku – Ég lít í anda hjá Auði og Í fjarlægð hjá Gunnari – náðu þó að bæta fyrir uppsafnaðan svefndrunga, enda líka afburðavel flutt. Blæbrigðaauðgin blómstraði þar sem aldrei fyrr, og jók heildin mönnum góða von um að þegar óvenjuríkur reynsluferill skili e.t.v. einhverjum fremstu dramatísku einsöngvurum í tónsögu lýðveldisins.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson