LIVERPOOL náði eins stigs forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld en þrátt fyrir það gengu leikmenn liðsins frekar niðurlútir af velli eftir leikinn gegn West Ham á Anfield.

LIVERPOOL náði eins stigs forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld en þrátt fyrir það gengu leikmenn liðsins frekar niðurlútir af velli eftir leikinn gegn West Ham á Anfield. Markalaust jafntefli varð niðurstaðan og það í öðrum heimaleik Liverpool í röð í úrvalsdeildinni en Fulham lék sama leik á dögunum.

Liverpool réð ferðinni lengst af en tókst ekki að finna leið framhjá Robert Green, markverði West Ham, sem stóð vaktina vel á milli stanganna. Finnski varnarmaðurinn Sami Hyypia var í þrígang aðgangsharður upp við mark gestanna en tókst ekki að skora og þá sýndi Green frábær tilþrif þegar hann varði skot frá Yossi Benayoun. West Ham átti fáar marktilraunir en Craig Bellamy komst næst því að skora á Anfield en þrumuskot hans fór í innanverða stöngina.

West Ham hefur ekki fagnað sigri á Anfield í 45 ár en strákarnir hans Gianfranco Zola sýndu hetjulega baráttu og fengu sitt fyrsta stig á útivelli gegn Liverpool í 9 ár. Þeir léku agað og af mikilli skynsemi.,,Við áttum klárlega skilið að vinna. Allt frá byrjun leiksins reyndum við að knýja fram sigur og þess vegna átti West Ham tvær hættulegar skyndisóknir í fyrri hálfleik. Stuðningsmenn okkar geta verið vonsviknir og við erum það en það má ekki gleyma því að við erum í toppsæti deildarinnar. Það var margt gott í þessum leik og hann var miklu betri en leikurinn við Fulham,“ sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir leikinn en hans menn hafa eins stigs forskot á Chelsea eftir 15 umferðir.

gummih@mbl.is