Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
„ÞAÐ er eðlilegt framhald að hafa mig í huga ef skipt verður um landsliðsþjálfara,“ segir Þórir Hergeirsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari Evrópumeistara Norðmanna í handknattleik kvenna.

„ÞAÐ er eðlilegt framhald að hafa mig í huga ef skipt verður um landsliðsþjálfara,“ segir Þórir Hergeirsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari Evrópumeistara Norðmanna í handknattleik kvenna.

Norska blaðið Dagsavisen ræðir við Þóri og þar segist hann hafa áhuga á starfinu, „en ég er ekki að hugsa um það nú“, segir Þórir enda upptekinn með landsliðinu á EM sem hefst í Makedóníu í dag.

Marit Breivik hefur verið landsliðsþjálfari kvenna í hartnær 15 ár og náð frábærum árangri. Undir hennar stjórn hefur liðið orðið ólympíumeistari, heimsmeistari og Evrópumeistari. Það styttist í 500. leikinn hjá liðinu undir hennar stjórn og orðrómur er um að hún sé að hugsa um að hætta þó svo hún hafi hvorki játað því né neitað.

„Þegar nýr þjálfari verður ráðinn er eðlilegt að hafa mig í huga,“ segir Þórir við Dagsavisen. Breivik ætlar að hugsa málið um hátíðirnar og tilkynna ákvörðun sína snemma á næsta ári. Þórir segist ekki vita hvort hún hafi hugsað sér að halda áfram eður ei, en hann hefur verið henni til aðstoðar með liðið síðustu átta árin. „Ég var fyrst með á stórmóti 1996 og hef verið með á öllum stórmótunum síðan nema á EM í Rúmeníu árið 2000, þá var ég í fæðingarorlofi,“ segir Þórir. Spurður hvort einhverjr breytingar yrðu ef hann tæki við sagði hann: „Menn verða alltaf að vera þeir sjálfir og það er bara ein Marit Breivik alveg eins og það er bara einn Þórir Hergeirsson. Það yrði bara að koma í ljós hvort það yrðu einhverjar breytingar.“ skuli@mbl.is