Mómæli við UBS.
Mómæli við UBS.
Hin alþjóðlega efnahagskreppa hefur hrist upp í Evrópuumræðu víðar en á Íslandi. Bresk stjórnvöld sögðu yfirlýsingar Manuels Barrosos, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að Bretar væru nær upptöku evru en nokkru sinni út í hött.

Hin alþjóðlega efnahagskreppa hefur hrist upp í Evrópuumræðu víðar en á Íslandi.

Bresk stjórnvöld sögðu yfirlýsingar Manuels Barrosos, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að Bretar væru nær upptöku evru en nokkru sinni út í hött.

Engu að síður á sér nú stað umræða um það á Bretlandseyjum hvort Bretar hefðu staðið betur að vígi í bankahruninu hefðu þeir verið með evru.

Merkilegra er hins vegar að svipuð umræða er nú hafin í Sviss. Þar eru bankarnir laskaðir vegna kreppunnar. Hlutabréf í bankanum UBS hafa hrapað um 67%. Bankinn hefur tapað 59 milljörðum dollara og í Bandaríkjunum hefur honum verið stefnt fyrir að hjálpa bandarískum auðmönnum að skjóta undan skatti. Svissneski frankinn hefur fallið og Sviss þykir ekki jafn öruggt skjól fyrir peninga og áður.

„Við höfum ekki lengur efni á að vera utan ESB,“ var haft eftir Hans-Juerg Fehr, þingmanni sósíaldemókrata, næst stærsta flokks landsins, á fréttavef Bloomberg í gær. Hann sagði að árásin á bankana „væri ekki jafn kröftug ef Sviss nyti skjóls hjá ESB“.

Síðan segir í fréttinni að í mistrinu yfir Norður-Atlantshafi sé Ísland, sem tók sér Sviss til fyrirmyndar með því að binda aleigu sína við fjármálageirann og beri því nú vitni hvað geti gerst fari allt á versta veg.

Edwin Truman, fyrrverandi yfirmaður alþjóðafjármáladeildar bandaríska seðlabankans, reynir þó að hughreysta Svisslendinga í hremmingum sínum: „Góðu fréttirnar eru að Sviss er ekki Ísland.“