Mortensen og Harris „Samvaldir harðjaxlar í aðalhlutverkunum og afburða skapgerðarleikarar í aukahlutverkunum,“ segir meðal annars í dómi.
Mortensen og Harris „Samvaldir harðjaxlar í aðalhlutverkunum og afburða skapgerðarleikarar í aukahlutverkunum,“ segir meðal annars í dómi.
Leikstjóri: Ed Harris. Aðalleikarar: Viggo Mortensen, Ed Harris, Renée Zellweger, Jeremy Irons, Timothy Spall, Lance Henriksen. 106 mín. Bandaríkin. 2008.

EINKAVÆÐING er ýmist talin bölvun eða blessun viðskiptalífs samtímans en því fer fjarri að hún sé ný af nálinni. Það er tekið að líða á 19. öldina þegar bæjarstjórnin í Appaloosa, landnemabæ í Vestur-Texas, grípur til hennar þegar önnur úrræði reynast ónothæf. Vandamál Appaloosa er Randall Bragg (Irons), ófyrirleitinn og vellauðugur aðkomumaður sem hefur keypt stóran búgarð í nágrenninu. Menn hans eru, líkt og hann sjálfur, uppvöðslusamir skrattakollar sem fara ekki að lögum, en þá fyrst tekur í hnúkana þegar Bragg myrðir fógetann í Appaloosa og tvo menn hans, þegar þeir ætla að koma honum undir manna hendur.

Oloson bæjarstjóri (Spall), sér það illskást í stöðunni að leigja tvo harðskeytta byssumenn, Cole (Harris), og Hitch (Mortensen), til að koma skikk á löggæsluna. Cole verður fógeti, Hitch, sem er vinur hans frá fornu fari, er hans þöguli og trausti staðgengill og hægri hönd.

Ástandið í Appaloosa verður enn tvísýnna þegar Allie (Zellweger), kát og kumpánleg ekkja birtist í bænum. Cole verður ástfanginn í fyrsta sinn og lífið gengur tiltölulega vel um sinn. Þeir félagar hafa hendur í hári Braggs og vandræði fylgja í kjölfarið. Til að bæta gráu ofan á svart reynist ekkjan ekki öll þar sem hún er séð, heldur útsmogin á alla lund og óæskilega lausgirt sem verðandi fógetafrú.

Þegar leikhópurinn er skoðaður kemur nafn þess afburða vestraleikstjóra Sam Peckinpah samstundis upp í hugann. Væri hann á meðal okkar hefði leikaraliðið getað orðið nákvæmlega það sama. Samvaldir harðjaxlar í aðalhlutverkunum og afburða skapgerðarleikarar í aukahlutverkunum. Harris er allajafna mikið hörkutól og lítt árennilegur (þeir eru eftirminnilegir saman hann og Mortensen í hinni ofbeldisfullu A History of Violance ), í Appaloosa er hann ekki jafn óheflaður og hann lítur út fyrir, hefur sinn kaldranalega húmor og viðkvæmar hliðar leynast á bak við skrápinn. Mortensen segir fátt, tjáir sig meira með svipbrigðum, þeir þekkja hvor annan mæta vel þessir byssuglöðu vígamenn laganna, orð eru óþörf. Zellweger tekst ásættanlega að túlka kræfa kvensu sem kemur utan af mörkinni og setur tilfinningalíf aðalpersónanna í uppnám. Minnir á Stellu Stevens í þeim fáséða en ógleymanlega Peckinpah-vestra, The Ballad of Cable Houge (´70). Þar fór Jason Robards Jr., með aðalhlutverkið en aukahlutverkin voru mönnuð snillingum að hætti leikstjórans; David Warner, L.Q. Jones, Strother Martin, Slim Pickens og R.G. Armstrong. Harris hefur svipaðan smekk, fyllir Appaloosa með yndislegu og úthugsuðu galleríi af mögnuðum karakterleikurum á borð við Mike Leigh-leikarann Spall, stórleikaranum Irons, hinn óborganlega Henriksen (sem fær reyndar lítið að reyna á sig), og James Gammon.

Appaloosa leggur sitt lóð á vogarskálina til að viðhalda hefðinni í einsleitu myndaframboði. Appaloosa er himnasending vestraunnendum, stílhrein, klassísk í útliti og innihaldi, tökustjórinn enginn annar en Dean Semler. Harris skapar heillandi og viðsjárvert andrúmsloft sem nýtur góðs af svipmiklu landi og leikurum. Í samanburði við nýlega vestra gefur hún 3:10 to Yuma og The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford , lítið eftir.

Sæbjörn Valdimarsson