Frá Þorsteini Haraldssyni: "Í MORGUNBLAÐINU, laugardag, er frétt um fjárhagslega endurskipulagningu Árvakurs hf., í samstarfi við viðskiptabanka fyrirtækisins."

Í MORGUNBLAÐINU, laugardag, er frétt um fjárhagslega endurskipulagningu Árvakurs hf., í samstarfi við viðskiptabanka fyrirtækisins.

Blaðið segir, eftir heimildum, að hópur áhugasamra einstaklinga vinni að því að gera tilboð í Árvakur og að lögð hafi verið áhersla á það í hópnum að miðað sé við að enginn einn hluthafi sé með ráðandi hlut í útgáfunni. Haft er eftir Einari Sigurðssyni, forstjóra, að það sé augljóst að í kreppunni leiti fólk í þá fjölmiðla sem það treystir og að mikilvægt sé að tryggja rekstur Morgunblaðsins til framtíðar.

Eyjólfur Konráð Jónsson var lengi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann skrifaði í blaðið um almenningshlutafélög og mikilvægt hlutverk þeirra til þess að dreifa hinu efnahagslega valdi og styrkja þannig beinlínis stoðir lýðræðisins.

Eyjólfur Konráð skrifaði í Morgunblaðið leiðara og greinar um mikilvægi þátttöku almennings í frjálsum atvinnurekstri sérhverrar lýðræðisþjóðar. Endurskipulagning Árvakurs, einnar mikilvægustu stoðar lýðræðis í landinu, er sögulegt tækifæri til þess að láta hugsjónir Eyjólfs Konráðs rætast.

ÞORSTEINN HARALDSSON,

endurskoðandi.

Frá Þorsteini Haraldssyni