— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is „NÚ förum við í Seðlabankann og tölum við Davíð,“ hrópaði einn fundargesta á Þjóðfundinum sem haldinn var við Arnarhól síðdegis í gær.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

„NÚ förum við í Seðlabankann og tölum við Davíð,“ hrópaði einn fundargesta á Þjóðfundinum sem haldinn var við Arnarhól síðdegis í gær. Í kjölfarið réðust yfir hundrað manns inn í anddyri Seðlabankans. Barið var á glugga í fremra anddyri, nokkrum eggjum kastað og málningu skvett. Krafðist fólkið þess að fá að ræða við Davíð Oddsson seðlabankastjóra og ósk hópsins var skýr. „Davíð burt,“ var hrópað. Mótmælendum var hleypt inn í innra anddyrið að glerhurð sem hópur óeirðalögreglumanna stóð bak við. Úti fyrir biðu fleiri lögreglumenn og sjúkrabílar voru til taks.

„Við vildum Davíð [Oddsson seðlabankastjóra] burt. Mjög einföld krafa og það er ekkert hlustað á þessa kröfu. 90% þjóðarinnar vildu hann burt,“ sagði Guðjón Heiðar Valgarðsson, einn mótmælenda, í samtali við mbl.is.

Mótmælendur voru oftar en einu sinni varaðir við því að lögreglan gæti beitt táragasi. Settist fólk þá ýmist á gólfið eða lyfti upp höndum til að sýna að það væri óvopnað. Upp úr klukkan fimm var svo lokað á að fólk kæmist inn í bankann og innan dyra sömdu mótmælendur við lögreglu. Legði hún niður vopn myndu mótmælendur fara. Er fallist var á þá kröfu leystust mótmælin upp. „Lifi fólkið. Við komum aftur,“ hrópuðu einhverjir úr hópi mótmælenda við komuna út úr bankanum og einn brá sér upp á þak Seðlabankans.

„Við stóðum föst á okkar máli. Þetta voru friðsamleg mótmæli og lögreglan féllst á okkar tillögu,“ sagði ein stúlka í hópnum er hún yfirgaf anddyrið.

Vill sýna samstöðu

„ÉG vil sýna samstöðu með fólki sem hefur misst vinnuna og veit ekki sitt rjúkandi ráð,“ segir Guðrún Gísladóttir, sem var í hópi þeirra þúsund einstaklinga sem tóku þátt í þjóðfundinum á Arnarhóli. Sjálf er hún þó ekki farin að finna mikið fyrir kreppunni. „Ég held mínu starfi og er þakklát fyrir það, en það eru ekki allir svona heppnir. Það er helst þegar ég kaupi í matinn sem ég finn fyrir kreppunni, enda hafa þær hækkanir á matvöruverði sem henni fylgja varla farið framhjá neinum.“

Ekki stætt á að starfa áfram

„MÉR finnst ekki stætt á því að fólkið sem búið er að leiða efnahagsstjórnina í þetta skipbrot starfi áfram og axli ekki þá ábyrgð sem það augljóslega ber,“ segir Sigrún Sigurðardóttir, sem tók þátt í fundinum við Arnarhól. Enn sem komið er kveðst hún ekki finna mikið fyrir kreppunni á eigin skinni, þó að vissulega verði hún þess vör að minna fáist fyrir launin. „Maður bíður kannski svolítið ennþá eftir stóra sjokkinu og hefur að sjálfsögðu áhyggjur af að við þurfum öll að borga fyrir þá sem voru að tapa sínu.“

Verðum að tala um fullveldið

ESB umræðan ræðumönnum hugleikin

UM þúsund manns tóku þátt í þjóðfundinum sem haldinn var við Arnarhól í gær og voru fundargestir ófeimnir við að sýna ræðumönnum stuðning sinn. Fullveldi þjóðarinnar, lýðræðið og ábyrgð var meðal þess sem var ræðumönnunum sex, sem þar fluttu mál sitt, hugleikið. „Lýðræði er einn þáttur lífsins sem veldur okkur áhyggjum í dag vegna vantrausts til þeirra fulltrúa sem áttu að passa fullveldi okkar og fara með lýðræðið,“ sagði Margrét Pétursdóttir verkakona sem hóf mál sitt á því að skilgreina fullveldi og hvatti til vel upplýstrar umræðu um Evrópumálin.

„Við verðum [...] að tala um fullveldið og hvort við viljum framselja það til stofnunar utan landhelgi. Það má vera að allar alhæfingar um ESB séu réttmætar, en umræðan og upplýsingar þar að lútandi eru sko alls ekki nægar. Við getum ekki fallist á að þær upplýsingar sem við fáum um kosti og galla þess að fara inn í Evrópusambandið verði á sömu nótum og upplýsingar þær sem við fengum um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða aðrar upplýsingar sem ríkisstjórnin átti að færa okkur,“ sagði Margrét.

Ábyrgð stjórnvalda og viðskiptalífsins varð hins vegar þeim Lárusi Pál Birgissyni sjúkraliða og Þorvaldi Gylfasyni hagfræðingi að umfjöllunarefni. „Valdstéttin brást skyldum sínum og heldur því nú fram að allir beri ábyrgð á skipbrotinu svo öruggt sé að enginn beri ábyrgð,“ sagði Þorvaldur og var vel fagnað.