Ólafur Karvel Pálsson
Ólafur Karvel Pálsson
Ólafur Karvel Pálsson mótmælir niðurskurði í þróunarsamvinnu við fátæk lönd á borð við Malaví og Mósambik.: "Ég skora á utanríkisráðherra að finna aðrar „vígstöðvar“ en þróunarsamvinnu til að knýja fram löngu tímabæran niðurskurð í utanríkisþjónustunni."

UTANRÍKISRÁÐHERRA, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kynnti nýverið tillögur ráðuneytis síns um niðurskurð í utanríkisþjónustunni vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá beinist meginþáttur niðurskurðarins, eða 73%, að þróunarsamvinnu meðal þjóða sem sannarlega eiga við erfiðust kjör að búa á þessari jörð, þ.e. að íbúum fátækustu ríkja jarðar í sunnanverðri Afríku – Malaví og Mósambik – en þessi ríki hafa verið helstu samstarfsríki okkar Íslendinga á sviði þróunarsamvinnu á undanförnum árum.

Haft er eftir utanríkisráðherra í dagblöðum að henni þyki „mjög miður að þurfa að spara á þessum vígstöðvum en staða mála hér á Íslandi er með þeim hætti að ekki verður frá þessu vikist.“ (Morgunblaðið 13. nóv.). Hvað á ráðherrann við með þessum orðum sínum? Telur hún að staða mála á Íslandi, staða Íslendinga almennt efnahagslega, sé nú sambærileg við það sem gerist meðal íbúa Malaví og Mósambik? Óhugsandi er að hún telji að svo sé, enda væri hún þá að opinbera mikla vanþekkingu á þessum málaflokki. En hvað er ráðherrann þá að meina með þessum ummælum sínum?

Ég beini því til ráðherrans að fara hið allra fyrsta á vettvang í þessum löndum og kynna sér frá fyrstu hendi þær aðstæður sem almenningur býr við. Reyndar minnir mig að ráðherrann hafi farið í ferð til Suður-Afríku nýverið á einhverja ráðstefnu. Það ágæta land er tiltölulega vel sett miðað við önnur lönd sunnan Sahara og því ekki dæmigert fyrir aðstæður í þessum heimshluta. Auk þess eru vestrænar ráðstefnur, þótt þær séu haldnar í Afríku, ekki heppilegur vettvangur til að kynnast aðstæðum þess fólks sem býr við lökust kjör í Afríku. Aðstæður þess fólks eru, því miður, afar bágbornar hjá öllum þorra íbúa viðkomandi landa. Í því sambandi nægir að nefna að þjóðartekjur á hvern íbúa í Malaví og Mósambik eru örfá hundruð dala á mann, en þjóðartekjur okkar Íslendinga nema tugum þúsunda dala, þrátt fyrir yfirstandandi kreppu.

Það þarf enginn að segja mér, og vonandi ekki heldur íslenskum almenningi, að ekki sé unnt að skera niður í utanríkisþjónustu Íslands með öðrum hætti en að ganga í skrokk á þeim sem fátækastir eru og mest þurfandi fyrir aðstoð okkar.

Það þarf ekki að segja mér að ekki að ekki sé hægt að sameina nokkur sendiráð af þeim 21 sem starfandi eru, án þess að skerða þjónustu að marki.

Það þarf ekki að segja mér að ekki megi selja nokkrar montbyggingar sendiráða, t.d. í Berlín.

Það þarf ekki að segja mér að ekki megi skera „Varnarmálastofnun“ niður.

Ég skora á utanríkisráðherra að finna aðrar „vígstöðvar“ en meðal fátækustu þjóða heims til að knýja fram nauðsynlegan og löngu tímabæran niðurskurð í utanríkisþjónustunni.

Höfundur er fiskifræðingur og starfaði í Malaví 1997-99.