Uppskurður Baldur „sker upp“ í sjónvarpssal árið 1978 og meðal þess sem kom úr maga sjúklingsins var hænuegg. Gísli Rúnar Jónsson aðstoðaði.
Uppskurður Baldur „sker upp“ í sjónvarpssal árið 1978 og meðal þess sem kom úr maga sjúklingsins var hænuegg. Gísli Rúnar Jónsson aðstoðaði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is BALDUR Brjánsson töframaður mun framkvæma „uppskurð“ á Græna hattinum á Akureyri næstkomandi föstudagskvöld en nokkur ár eru liðin síðan hann „skar upp“ síðast opinberlega.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

BALDUR Brjánsson töframaður mun framkvæma „uppskurð“ á Græna hattinum á Akureyri næstkomandi föstudagskvöld en nokkur ár eru liðin síðan hann „skar upp“ síðast opinberlega.

Sjúklingurinn er ekki gefinn upp á þessari stundu né hvaða „meinsemd“ töframaðurinn hyggst fjarlægja úr líkamanum. Meðal þeirra sem koma til greina eru þekktur verslunarmaður norðan heiða eða málsmetandi læknir.

„Ég ætla bara að mæta og gera þetta eftir bestu kunnáttu. Einhverja meinsemd ætla ég að taka úr manninum,“ segir Baldur.

Þrjátíu ár eru liðin síðan hann sýndi þetta töfrabragð frammi fyrir alþjóð í Sjónvarpinu, eða í apríl 1978, þegar mikil umræða var um andaskurðlækningar á Filippseyjum. Hundruð Íslendinga höfðu þá leitað sér „lækninga“ á þeim slóðum og margir töldu sig hafa fengið bót meina sinna. Baldur vildi með atriði sínu í Sjónvarpinu sýna fram á að um sjónhverfingar væri að ræða hjá þessum „læknum“ á Filippseyjum.

Fer með leyndarmálið í gröfina

Út er komin ævisaga Baldurs, Töfrum líkast, rituð af Gunnari Kr. Sigurjónssyni, töframanni með meiru, sem Bókaútgáfan Hólar gefur út. Þar er farið yfir feril töframannsins í leik og starfi.

Aðspurður segist Baldur hafa dregið úr störfum sínum sem töframaður en hann haldi sig þó við efnið reglulega. Hann var meðal stofnenda Hins íslenska töframannafélags á síðasta ári. Eru félagsmenn nú orðnir um 25 talsins.

Enginn íslenskur töframaður hefur leikið eftir uppskurð Baldurs, enda hefur hann ekkert verið að upplýsa hver sé galdurinn. „Ætli ég taki ekki leyndarmálið með mér í gröfina,“ segir Baldur og hlær.

Fékk morðhótun eftir sjónvarpsþáttinn

Baldur upplýsir það í fyrsta sinn í ævisögunni að hafa fengið morðhótun eftir þáttinn fræga í Sjónvarpinu vorið 1978. Símtal barst þá frá útlöndum, þar sem sagt var á bjagaðri ensku: „You watch out! No say more bad things and it is not true. If you not careful, we come to your house and bang-bang! You dead! Understand?“ Baldri var nokkuð brugðið en af efni símtalsins réð hann að einhver tengdur lækningamiðstöðinni á Filippseyjum hefði hringt með þessa hótun til að hræða íslenska töframanninn. Ekkert varð úr hótuninni enda Baldur sprelllifandi í dag.