Ruggustólarnir
Ruggustólarnir
Til 18. janúar 2009. Opið fi.-su. kl. 14-18. Aðgangur ókeypis.

Í Kling & Bang galleríi, Hverfisgötu 42, sýnir nú Baldur Geir Bragason undir yfirskriftinni „Yfirborðskennd“. Verkin leika á mörkum málverks, skúlptúrs og nytjahluta og eru því gott dæmi um viðleitni í samtímalistum til að má út mörk og láta mismunandi svið skarast.

Listamaðurinn sækir í ýmis forðabúr; til afþreyingarmenningar, listasögunnar, verkmenningar og iðnaðarframleiðslu. Verkin, sem eru nokkuð mörg en fara vel í salnum, eru flest búin til úr viði, málningu og striga. „Lurkur“ samanstendur t.d. af útskornum lurkum sem eru brúnmálaðir en það veitir þeim teiknimyndalegt yfirbragð í anda þáttanna um „Steinaldarmennina“. Skírskotun málverksins „Abstrakt“ er ekki eins alþýðleg og tengist fremur hugmyndum um hálist og andlega leit. Hinn formræni, geómetríski tjáningarháttur þessa málverks endurómar í verkinu „Ruggustóll“ þar sem renna saman málverk og skúlptúr svo að minnir á móderníska stólahönnun De Stijl-hópsins í byrjun 20. aldar. Meðvituð stílbrot í báðum þessum verkum grafa hins vegar undan fagurfræðilegum hátíðleika eða röklegri merkingu.

Verkið „Rusl“, skammt þar frá, ýtir undir grínaktugleikann. Þar er sem viður umbreytist í svartan ruslapoka fyrir tilstuðlan svartrar málningar og geómetrískrar mótunar. Á vegg eru ljósmyndir af ávöxtum og torræðum formum sem leiða hugann að kyrralífshefð í málverki (og það gera einnig mörg önnur verk sýningarinnar). En þá er áhorfandanum komið skemmtilega á óvart með verkinu „Flakkarinn“ þar sem poki úr málarastriga, hnýttur á brúnmálaða tréstöng, kippir manni aftur í heim teiknimyndasagna en undir formerkjum „málverks“ og „skúlptúrs“.

Myndbandsverkið „Slugsi“ lýsir skynrænu ferðalagi en þar sést hvar snigill þreifar sig áfram eftir yfirborði pappírsarkar og skilur eftir sig slóð sem mótar yfirborðið, hliðstætt við listamanninn sem mótar efniviðinn með „fari“ sínu (hér er einnig á ferðinni húmorísk vísun í athafnamálverkið). Líkt og yfirskriftin gefur til kynna nýtur Baldur Geir þess að „þreifa“ á yfirborðinu; efnisleika þess, útliti og skírskotunum, í þeirri samtvinnun handverks og hugvits sem útfærsla verkanna byggist á. Ýmsir þættir sýningarinnar búa yfir efnislegu seiðmagni og eftirtektarverðri blöndu íhygli og leiks.

Anna Jóa