Gunnar Matthíasson fæddist í Reykjavík 28. október 1925. Hann lést á heimili sínu 30. nóvember síðastliðinn og var jarðsungnn frá Neskirkju 9. desember.

Upp úr miðri síðustu öld voru það forréttindi að eiga ættingja í siglingum. Fyrir þá fullorðnu gat það auðvitað haft mildandi áhrif á vöruskort og höft af ýmsu tagi, en fyrir börnin voru þessi forréttindi allt annars eðlis. Stoltið af því að eiga frænda sem sigldi, og meira að segja með kaskeiti, var upphafning sem við skildum. Tenging við hetjurnar í ótal strákabókum, leyndardómsfullur gluggi yfir landamæri og út í hinn stóra heim. Ekki svo að skilja að við höfum ekki kunnað að meta fínu leikföngin og útlenska gottið, en hvorugt var þó það mikilvægasta við Gunnar frænda.

Hann Gunnar frændi sigldi með kaskeiti og hann skipaði sér vissulega á sess með hetjunum. Um ýmislegt annað hafði hann þó jafnvel fekar sérstöðu í barnshuganum. Hann átti heima á næsta ævintýralegum stað, eiginlega í slippnum við Mýrargötuna. Þangað var gott að koma. Hann átti konu sem tók jafn vel á móti börnum og fullorðnum og var ósínk að lána frábærar strákabækur. Svo átti hann tvær dætur, sem höfðu að vísu þann löst að vera ekki strákar, en voru að öðru leyti jafn ásættanlegar og eintök af þessari erfiðu dýrategund, stelpur, gátu verið.

En Gunnar var umfram allt „frændi“ og hann er undirrituðum enn táknmynd þess hugtaks. Í minningunni er hann eins og mótaður af heilræðavísum; „lítillátur, ljúfur, kátur“ væri ágætis byrjun á þeirri mannlýsingu. Hann kom alltaf til dyranna eins og hann var klæddur og hann hafði jafnframt þann sjaldgæfa eiginleika að taka öðrum athugasemdalaust, eins og þeir komu fyrir. Gegn um barnæsku og brokkgeng unglingsár var það ómetanlegt að hitta öðru hvoru frænda sem virtist ekki telja neina þörf á að reyna að breyta þér. Tók þér alltaf fagnandi sem einstaklingi en ekki aðeins óhjákvæmilegum fylgifiski hinna fullorðnu, og bar þér þau skilaboð að þú værir í lagi, þrátt fyrir öll gönuhlaupin í tilverunni.

Gunnar var hvorki hávær né deilugjarn. Systir hans, árinu eldri, minnist nú margs sem brallað var og brasað og fullyrðir að það eina sem sér hafi aldrei tekist að fá litla bróður til að gera hafi verið að rífast. Einhvern veginn er ekki erfitt að trúa því, enda nánast ómögulegt að ímynda sér Gunnar frænda við þær aðstæður.

Þegar að leiðarlokum kemur getur verið erfitt að koma orðum að þeim tilfinningum sem minningarnar vekja. Eiginlega eru það aðeins tvö orð sem koma upp í hugann og ég þykist vita að systkini mín, Kristín, Ella Sigga, Matti og Gummi, taka undir þau með mér.

Takk, frændi.

Halldór K. Valdimarsson (Haddi).