— Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is ÞEIR eru ekki bara þrír, heldur fjórir.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

ÞEIR eru ekki bara þrír, heldur fjórir. „Það eru svo margir góðir tenórsöngvarar á Íslandi,“ segir Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenórsöngvari, sem er potturinn og pannan í tónleikahaldi tenóranna fyrir jól.

Tenórarnir fjórir halda tvenna tónleika í Íslensku óperunni að þessu sinni; annað kvöld og á sunnudagskvöld, kl. 20 bæði kvöldin.

Þeir sem skipa hópinn í ár eru auk Jóhanns Friðgeirs: Snorri Wium, Gissur Páll Gissurarson og Garðar Thór Cortes. „Við höfum tvisvar áður verið með tónleika í Langholtskirkju, þrír tenórar, síðast fyrir tveimur árum, en að þessu sinni syngjum við í samstarfi við Óperuna.“

Við valið á tenórum í hópinn kveðst Jóhann Friðgeir hafa það að leiðarljósi að það séu söngvarar sem eru komnir með fótfestu í söngnum erlendis, og það hafa fjórmenningarnir allir gert. „Það er einfalt mál – þeir sem eru búnir að syngja í óperuhúsum úti koma til greina.“

Góður hópur en ekki allir eins

Garðar Thór Cortes syngur nú í fyrsta sinn með Tenórunum, en eins og alþjóð veit er hann búinn að syngja mikið bæði hér heima og erlendis undanfarin ár. Sjálfur starfar Jóhann Friðgeir aðallega við óperuhús erlendis. Það á líka við um Snorra Wium, sem hefur starfað við óperuhús í Austurríki og Þýskalandi síðustu árin. Gissur Páll Gissurarson er eins og Garðar að syngja í fyrsta sinn með hópnum og hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn.

Jóhann Friðgeir segir að þessi hópur sé góður, en þeir séu ekki allir steyptir í sama mótið. „Það er nú alltaf vandamálið að allir tenórar vilja vera sem stærstir og syngja stærstu lögin. Ætli ég sé ekki dramatískastur; Snorri kemur næstur mér og Garðar og Gissur eru léttari tenórar og svipaðir. Við erum allir „lirico-spinto“-tenórar en misléttir.“ Spurður hvort tenórarnir bítist þá ekki um bestu lögin fer Jóhann Friðgeir að hlæja: „Jú, það er eitthvað smá – verðum þá bara að fara í sjómann til að leysa það,“ svarar hann að bragði. „Við gerum þetta auðvitað í sameiningu,“ áréttar hann.

Óvíst með Una furtiva lagrima

„VIÐ syngum aríur, bæði hver fyrir sig og saman og hátíðleg jólalög. Við syngjum líka nokkrar syrpur: létta sönglagasyrpu með amerískum blæ, syrpu með napólísöngvum, létta íslenska jólalagasyrpu og erlenda jólalagasyrpu sem byrjar með léttleika en endar með hátíðlegum blæ.“

Vilja tenórarnir eiga „sín“ lög eins og Jussi Björling átti Ó, helga nótt ?

„Garðar og Gissur voru að bítast um hvor ætti að syngja Una furtiva lagrima . Ég sagði að ég ætti að syngja það, enda kallaður Jói lagrima. Það er stór spurning hvort arían verður sungin eða ekki.“