Breski blaðamaðurinn A.A. Gill fjallar um bankahrunið og ástandið á Íslandi af mikilli pennagleði í Sunday Times um helgina eins og reyndar hefur komið fram í fjölmiðlum.

Breski blaðamaðurinn A.A. Gill fjallar um bankahrunið og ástandið á Íslandi af mikilli pennagleði í Sunday Times um helgina eins og reyndar hefur komið fram í fjölmiðlum. Hann lýsir því hvernig pestir, plágur og hamfarir hafi hrjáð íslenska þjóð og furðar sig á því að Íslendingar skuli hafa látið sér detta í hug að nú væri gæfan lögst á sveif með þeim. John Lennon gerði einhvern tíma örlög Írlands að yrkisefni og sagði að sá sem nyti heppni Íra yrði miður sín og vildi fremur vera dauður. Er hægt að setja Íslendinga þarna inn í staðinn? Kannski ekki, en Gill fær mikil viðbrögð við greininni á netinu, einkum frá þakklátum Íslendingum. En erlendar raddir koma líka fram. Einn skrifar að hann skammist sín fyrir Gordon Brown, annar veltir fyrir sér hvort Ísland verði lokað land eins og Bútan og Íslendingar muni koma sér upp sínum eigin hamingjustuðli. Margir óska Íslendingum góðs gengis í hrunadansi kreppunnar.

Það má samt ekki ganga of langt í að gera Íslendinga að saklausum fórnarlömbum kreppunnar. Hina saklausu Íslendinga með sitt hjartahreina yfirbragð, sem vitaskuld geta ekki verið hryðjuverkamenn. Morgunblaðinu barst nafnlaust bréf frá breskum hjónum, sem eru komin undir áttrætt. Allur þeirra sparnaður var á Icesave-reikningi. Nú er hann farinn og með honum draumurinn um áhyggjulaust ævikvöld, svo vitnað sé í gamlan auglýsingatexta. Það er ekkert saklaust við það hvernig farið hefur verið með þetta fólk. Það er engin furða að þessu fólki líður eins og það hafi orðið fyrir árás hryðjuverkamanna. Ísland er ekki saklaust í bankahruninu, samviskan er ekki hrein eins og drifhvítur snjór. Útrásarvíkingarnir hafa skilið eftir sig sviðna jörð og auðvelt er að skilja að í hugum þeirra, sem standa eftir eignalausir, sé eitthvað athugavert við myndina af saklausu, ljóshærðu og bláeygu eyjarskeggjunum, sem ekki geti gert flugu mein.