ÞEIR sem hrjóta fast og eiga í öndunarerfiðleikum í svefni brenna yfirleitt mun fleiri hitaeiningum en aðrir þegar þeir sofa, samkvæmt nýrri rannsókn.

ÞEIR sem hrjóta fast og eiga í öndunarerfiðleikum í svefni brenna yfirleitt mun fleiri hitaeiningum en aðrir þegar þeir sofa, samkvæmt nýrri rannsókn.

Þeir sem eru með alvarlegustu einkenni kæfisvefns, sem lýsir sér í öndunarhléum af og til og háværum hrotum, brenna að meðaltali 373 fleiri hitaeiningum en þeir sem eru með vægari einkenni, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC .

Breytingar á taugakerfinu kunna að valda þessu, að sögn BBC , sem hefur eftir breskum sérfræðingi að kæfisvefn sé ekki líklegur til þess að hjálpa of feitu fólki að grennast. „Ef menn eru með kæfisvefn eru þeir mjög syfjaðir á daginn og tregir til að hreyfa sig og iðka líkamsrækt,“ sagði John Stradling, sérfræðingur í svefnsjúkdómum við John Radcliffe-sjúkrahúsið í Oxford. „Við vitum líka að svefnleysi eykur matarlystina og minnkar viljastyrkinn.“

Vísindamenn við Kaliforníu-háskóla í San Francisco önnuðust rannsóknina og mældu orkubrennslu 212 manna í svefni.

bogi@mbl.is