Viktor Þór Þorkelsson fæddist á Siglufirði 18. maí 1946. Hann lést 5. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Laugarneskirkju 16. desember.

Í dag kveðjum við einn af okkar bestu starfsmönnum og félögum, Viktor Þorkelsson. Erfitt er að finna eins ósérhlífinn og duglegan einstakling og Viktor. Hann vann þannig starf að hann hitti okkur öll mjög oft og leysti úr flestöllu sem við báðum hann um fljótt og vel og alltaf með gleði og ánægju. Ef eitthvað þurfti að laga eða kaupa hringdum við í Viktor og alltaf var sama svarið: Ég redda því, elskan, ég redda því, félagi, og vorum við rétt búin að leggja símann á þegar hann var mættur á staðinn til að redda málunum, alltaf brosandi kátur og hress. Alltaf stutt í húmorinn. Það var okkur öllum því mikið áfall að frétta að hann væri ekki á meðal okkar lengur og eigum við eftir að sakna hans mikið og uppgötva að við getum ekki lengur notið aðstoðar hans og félagsskapar. Viktor var ótrúlega stór partur af okkar starfsemi og vann alltaf þannig að hagur fyrirtækisins væri númer eitt. Betri og þægilegri samstarfsmann er vart hægt að hugsa sér. Við viljum öll þakka Viktori einstaka vináttu og samstarf í gegnum árin og megi Guð geyma hann. Fjölskyldu hans vottum við innilega samúð og biðjum góðan Guð að styðja þau í sorginni.

Kveðja.

Fyrir hönd neytendasviðs N1,

Ingunn Elín Sveinsdóttir.

Það var góður hópur manna sem vann hjá Olíufélaginu þegar við tveir hófum þar störf fyrir rétt 10 árum, þar á meðan Viktor Þorkelsson sem nú hefur verið kallaður úr þessum heimi fyrir aldur fram. Þrátt fyrir miklar breytingar í starfsemi félagsins á þessum árum var Viktor alltaf boðinn og búinn að takast á við ný verkefni af ósérhlífni og jákvæðni.

Viktor hafði marga góða mannkosti og sérstaklega þann að sjá aldrei vandamál heldur einungis verkefni til að leysa. Það var ómetanlegt að hafa hann í okkar liði og þegar kom að því að setja upp nýjar verslanir eða breyta þeim eldri var hann að öðrum ólöstuðum manna duglegastur. Þar hlífði hann sér hvergi. Viktor sagði ekki margt, verkin töluðu hans máli. En léttur og kátur var hann ætíð þó svo að reyndi á hann í hans einkalífi.

Það duldist engum að velferð barna hans og umhyggja voru hans forgangsverkefni. Það mun okkur seint gleymast hvernig hann umvafði yngsta son sinn í ferð á vegum fyrirtækisins til Lundúna haustið 2005. Frá morgni til kvölds var verið að skoða borgina og allt miðaðist við að gera ferðina sem ánægjulegasta fyrir soninn, svo ef einhver ræddi um hans ósérhlífni þá var svarið einfaldlega bros og að þetta gæfi lífinu gildi. Þessi umhyggja skilaði sér í mannvænlegum einstaklingum sem sýndu föður sínum í verki að þau kunnu að meta hans fórnfýsi fyrir velferð þeirra. Missir þeirra er mikill svo og samstarfsmanna hjá N1.

Við vottum börnum hans, ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð.

Heimir Sigurðsson,

Ingi Þór Hermannsson.