Kaup Björgólfur Gðmundsson keypti West Ham ásamt Eggerti Magnússyni.
Kaup Björgólfur Gðmundsson keypti West Ham ásamt Eggerti Magnússyni. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@mbl.is MP Banki, einn lánardrottna Hansa ehf., telur gjaldþrot félagsins vera óumflýjanlegt og vill að það verði tekið til gjaldþrotaskipta. Hansa ehf.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@mbl.is

MP Banki, einn lánardrottna Hansa ehf., telur gjaldþrot félagsins vera óumflýjanlegt og vill að það verði tekið til gjaldþrotaskipta. Hansa ehf., sem er eigandi enska knattspyrnuliðsins West Ham, er í eigu Björgólfs Guðmundssonar.

Félagið óskaði nýverið eftir áframhaldandi greiðslustöðvun fram í mars á næsta ári en MP banki setti sig upp á móti þeirri ósk. Taldi bankinn ráðagerðir Hansa-manna óraunhæfar, ólíklegar og samrýmast ekki tilgangi greiðslustöðvunar. Ef dráttur yrði á gjaldþrotaskiptum myndi það einungis auka hættuna á að kröfuhöfum yrði mismunað. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði á föstudag að Hansa gæti verið áfram í greiðslustöðvun til föstudagsins 6. mars 2009. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar.

Skulda félögum í Lúxemborg

Á fundi sem var haldinn með kröfuhöfum félagsins 4. desember síðastliðinn var farið yfir helstu eignir og skuldir félagsins líkt og þær voru um miðjan nóvember. Samkvæmt þeim efnahagsreikningi var eigið fé Hansa neikvætt um 13,3 milljarða króna. Eignir voru bókfærðar á 24,7 milljarða króna en skuldir þess voru á sama tíma sagðar 38 milljarðar króna. Alls eru um 16,9 milljarðar króna af skuldunum með breytirétti í hlutabréf. Eigendur þeirra skulda eru Björgólfur Guðmundsson og tvö félög í hans eigu sem skráð eru í Lúxemborg, Bell Global Sarl og Monte Cristo Ltd.

Í greinargerð sem Hansa lagði fram fyrir dómi segir að félagið vilji áframhaldandi greiðslustöðvum til að geta selt West Ham og það ferli sé þegar hafið. Þegar hafi verið haft samband við mögulega kaupendur. Ekki er þó tiltekið um hverja sé að ræða. Þar kemur einnig fram að Standard Bank og Novator Partners LLP annist söluna. Novator er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Standard Bank er einn stærsti kröfuhafinn í bú Samson eignarhaldsfélags, sem Björgólfsfeðgar eiga einnig en er í gjaldþrotaskiptum. Alls nema skuldir Samson við Standard um átján milljörðum króna.

Segjast meira virði en City

Í dómsorði kemur fram að forsvarsmenn Hansa telji að þeir geti fengið allt að 250 milljónir punda, um 44 milljarða króna, fyrir félagið. Engin gögn voru lögð fram til að styðja það verðmat en Hansa-menn bentu á að Manchester City, sem einnig er breskt knattspyrnufélag, hefði selst á 230 milljónir punda, um 40 milljarða króna, í lok ágúst síðastliðins og að þeirra mati sé West Ham enn verðmætara. Manchester City var keypt af fjárfestingarfélaginu Abu Dhabi United Group sem tengist konungsfjölskyldunni í Abu Dhabi. Hún er metin á um 500 milljarða punda, eða 87 þúsund milljarða íslenskra króna. Til samanburðar eru heildarskuldir íslensku bankanna erlendis um tíu þúsund milljarðar króna. Þegar Björgólfur Guðmundsson keypti West Ham fyrir tveimur árum voru greiddar fyrir um 85 milljónir punda auk þess sem skuldir upp á 22 milljónir punda voru yfirteknar.

Í hnotskurn
» Hansa keypti West Ham haustið 2006 á 85 milljónir punda og yfirtók auk þess 22 milljónir punda skuldir.
» Eigendurnir telja sig nú geta fengið 250 milljónir punda fyrir félagið og benda á kaupin á Manchester City því til stuðnings. Þeir sem keyptu það félag eru meðal ríkustu manna í heimi.