Bjarni Gíslason
Bjarni Gíslason
Eftir Bjarna Gíslason: "Við breytum ekki orðnum hlut en við getum haft áhrif á framtíðina."

NÚ hriktir í grunnstoðum samfélagsins segja menn. Hvað er átt við með svona fínu orðalagi? Grunnstoðir samfélagsins. Hverjar eru þær? Líklega eiga margir við heilbrigðis-, mennta- og alma nnatryggingakerfið. Fjármálakerfið er líka ein meginstoðin, eða hvað? Þegar við tölum um stoðir eigum við sjálfsagt við að þær haldi uppi, séu grundvöllur samfélags okkar. Stoð þýðir líka samkvæmt orðabók Menningarsjóðs: „stuðningur, hjálp; sá sem hjálpar: stoð (og stytta) e-s.“ Grunnstoðir samfélagsins eru þá stoðir sem styðja við þegna samfélagsins, efla réttlæti og jafnrétti. Að mínu mati er einn þáttur grundvöllur og forsenda fyrir því að markmið stuðnings og réttlætis náist. Það er viðhorf einstaklingsins, grunngildi sem ráða för í lífi hvers manns. Viðhorf þeirra einstaklinga sem byggja upp stoðir samfélagsins skína í gegn og sjást. Getur verið að viðhorf og grunngildi þeirra sem leiddu framgang og vöxt fjármálakerfisins hafi átt þátt í falli þess? Urðu eiginhagsmunir, hagnaðar- og ávöxtunarvon fárra allsráðandi á kostnað samfélagslegrar ábyrgðar?

Við breytum ekki orðnum hlut en við getum haft áhrif á framtíðina. Í uppbyggingu á nýju fjármálakerfi skipta grundvallarviðhorf, grunngildin, öllu máli. Það skiptir öllu máli að viðhorfin sem urðu gamla fjármálakerfinu að falli ráði ekki för í hinu nýja. Ný viðhorf með nýju fólki, sagði einhver. Er komið nýtt fólk til forystu í nýju bönkunum? Ég vil hvetja okkur öll til að láta hin kristnu gildi, fyrirmynd Krists sjálfs, vera mótandi afl í lífi okkar og viðhorfum. Þá verður samfélagsleg ábyrgð, réttlæti og hagur náungans efst á blaði, líka í uppbyggingu á stoðum samfélagsins.

Að lokum vil ég minna á kjörið tækifæri til að taka þátt í að bæta samfélagið, heima og erlendis, með því að taka þátt í jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Greiðum heimsenda gíróseðla þar sem framlagið skiptist á aðstoð heima og erlendis. Heima er veitt aðstoð til að brúa erfitt bil og í Afríku eru byggðir brunnar sem tryggja þúsundum vatn. Stöndum saman og réttum hjálparhönd – heima og erlendis.

Höfundur er fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.