HÉRAÐSDÓMUR Norðurlands eystra hefur dæmt 19 ára karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hættubrot en maðurinn setti gúmmíbolta upp í leggöng stúlku og skildi hann þar eftir án hennar vitneskju.

HÉRAÐSDÓMUR Norðurlands eystra hefur dæmt 19 ára karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hættubrot en maðurinn setti gúmmíbolta upp í leggöng stúlku og skildi hann þar eftir án hennar vitneskju. Þremur vikum síðar var boltinn fjarlægður með skurðaðgerð en konan var þá komin með bólgur og alvarlega sýkingu. Pilturinn var dæmdur til að greiða stúlkunni 600 þúsund krónur í bætur. Hann var einnig ákærður og fundinn sekur um að hóta lögreglumönnum lífláti utan við veitingastað á Akureyri.

Fram kemur í dómnum að pilturinn og stúlkan hittust í júlí og fóru í kjölfarið heim til hennar og höfðu samfarir. Þau voru bæði drukkin. Pilturinn sagðist hafa teygt höndina niður á gólf og fundið þar boltann, sem hann setti síðan inn í leggöng stúlkunnnar. Stúlkan sagðist hafa talið að boltinn væri eitthvert kynlífsleikfang sem pilturinn hefði síðan tekið út.

Boltinn hefði jafnvel getað valdið dauða

Boltinn var sýndur í réttinum en hann var tæpir 6 sentimetrar í þvermál. Læknir bar, að aðskotahlutur sem þessi í leggöngum gæti valdið miklum móðurlífsbólgum og jafnvel dauða. Stúlkan hefði svarað meðferð mjög vel og mundi atvikið ekki hafa varanlegar líkamlegar afleiðingar. Hann tók fram að stúlkan hefði verið mjög undrandi þegar hann fann boltann en hún hefði áttað sig fljótt á því hvenær þetta hefði gerst.

Dómurinn taldi að stúlkan ætti rétt til miskabóta úr hendi piltsins. Var litið til þess að stúlkan hefði orðið fyrir verulegum líkamlegum og andlegum þjáningum vegna verknaðar mannsins og um tíma mátt búa við það að hætta væri á að hún yrði ófrjó.