ÉG undirrituð er 54 ára gömul og upplifi það í fyrsta sinn á ævi minni að standa ekki skil á því sem ég hef „skuldbundið mig til“. Mér þykir það vond upplifun.

ÉG undirrituð er 54 ára gömul og upplifi það í fyrsta sinn á ævi minni að standa ekki skil á því sem ég hef „skuldbundið mig til“. Mér þykir það vond upplifun.

Svo er mál með vexti að árið 2007 ákváðum við hjónin að festa kaup á litlu 110 fm húsi í Hafnarfirði. Samanlagðar eignir okkar voru þá 10 milljónir – en engar skuldir, því við erum bæði alin upp við það að standa í skilum. Foreldrar okkar beggja kenndu okkur að afla fyrst og eyða svo. Þannig hef ég lítið keypt með afborgunum, lítið notað kreditkort og ekki tekið yfirdráttarlán. Að standa í skilum hefur verið aðaldyggðin, greiða allt sem mér ber, og svo má nota afganginn, ef einhver er, í eitthvað skemmtilegt. Húsið kostaði 30 milljónir og okkur stóð til boða 20 milljón króna myntkörfulán sem bæði fasteignasalinn og bankinn okkar mæltu mjög með. Okkur var reyndar sagt að við myndum ráða við miklu dýrari eign, en það vildum við ekki því við eigum samtals 6 börn og 2 barnabörn sem við viljum hjálpa eftir megni og eiga kannski náðugari daga í ellinni. Afborganir af láninu voru um 120 þúsund á mánuði og við gerðum að sjálfsögðu ráð fyrir að þær gætu sveiflast eitthvað með gengi krónunnar. Verðbólguspá Seðlabankans í fyrra benti ekki til annars en að allt væri í stakasta lagi og yrði svo áfram. Á þetta treystum við. Til þess kjósum við ykkur.

Ég hefði svo mikið viljað standa mig í því að hvetja börnin mín, tengdabörn og ekki síst barnabörnin til að standa í skilum , og þar með að halda sjálfsvirðingu sinni, en ég get það ekki lengur, því miður.

Ég er nefnilega sjálf hætt að standa í skilum, eins og ég sagði í upphafi þessa bréfs. Hætt að standa í skilum, í fyrsta skipti á ævi minni. Við hjónin höfum að vel hugsuðu máli ákveðið að hætta að greiða bankanum það sem hann rukkar okkur nú um. Ég skuldbatt mig til að borga rúmlega 100.000 á mánuði, plús eða mínus einhverja tugi þúsunda. Staða okkar núna er hins vegar allt önnur. Fyrir nóvembermánuð vorum við rukkuð um hvorki meira né minna en 340.000 (þrjú hundruð og fjörutíu þúsund krónur). Á sama tíma hafa launin okkar hækkað um 3%. Mér sýnist líka 20 milljón króna lánið sem við tókum í fyrra vera skráð núna á um 40 milljónir króna.

Ég var svo sem eins og flestallur almenningur á Íslandi búin að ákveða með sjálfri mér fyrir þó nokkrum mánuðum síðan að þær stjarnfræðilegu upphæðir sem menn virtust vera að höndla með gætu ekki endað vel. Þessi bréf voru greinilega í fyrirtækjum og einhvers konar pappírum öðrum sem hlutu að fara illa á endanum. En að þeir tækju mig og alla hina samlanda mína með sér í fallinu – það hafði ég ekki haft hugmyndaflug í. Það sem mér þykir svo einkennilegt núna, er að þetta hrun/fall bankanna og þar með ábyrgðaraðilans, ríkisins, skyldi koma ykkur öllum ráðamönnum/konum svona á óvart. Það er eins og þið hafið ekki vitað fyrir hvað þið höfðuð skuldbundið ykkur og um leið alla íslensku þjóðina. Allri ríkistjórninni sem ég hafði kosið til að bera ábyrgð á þessu fyrir mig kom þetta á óvart. Höfðuð þið ekki samið lögin sem bankarnir unnu eftir? Þið selduð bankana á sínum tíma, var það ekki úthugsað hvernig nýir eigendur myndu fara með sín nýju fyrirtæki? En enginn segist bera ábyrgð, það biðst enginn einu sinni afsökunar á þessari stöðu sem við erum í. Hvers vegna ekki? Þessu er öllu stjórnað af fólki, þetta eru ekki náttúruhamfarir.

En þar sem ég vil ennþá vera heiðarleg og líka standa í skilum með það sem ég hef skuldbundið mig til hef ég enn eina spurningu fyrir ykkur, þar sem lánið er enn á nöfnum okkar hjóna. Hvert á ég að áframsenda þessa rukkun? Ég vil nefnilega síður að litlu ömmustelpurnar mínar, sem í dag eru 5 og 6 ára, þurfi að greiða þessar skuldir sem hér um ræðir og eru ennþá á mínu nafni. Mér skilst á fjölmiðlaumræðunni að nóg sé nú samt búið að skuldbinda þær litlu stúlkur nú þegar af ykkur, yfirmönnum þessa lands. Þetta er bara ekki einleikið hvernig ég og mín ætt höfum látið fara með okkur. Við þetta heilsuhrausta fólk, sem alla tíð höfum skilað okkar til samfélagsins, sem verkafólk, sjómenn og kennarar og alltaf staðið í skilum . Þetta með að fara vel með og eyða ekki um efni fram – það hefur greinilega eitthvað misskilist í minni fjölskyldu. Finnst ykkur það ekki líka?

Nú þegar ég er hætt að greiða af myntkörfuláninu reikna ég með að litla draumahúsið okkar verði tekið af okkur. Er það ekki það sem gerist ef maður stendur ekki í skilum? Ég veit það ekki, því ég hef aldrei skuldað neinum neitt áður. Þá ætla ég bara að segja ykkur að lokum að ég ætla að taka með mér jólaseríuna sem er utan á húsinu og líka engilinn sem stendur í glugganum, það á ég hvort tveggja skuldlaust.

Með von um svör við þessum spurningum mínum því ég veit að allur þorri almennings/kjósenda á Íslandi er í svipuðum sporum og myndi því líka lesa svör ykkar.

Bestu kveðjur.

P.s. Mig langar líka til að segja ykkur, þó svo mér þyki það leitt, að ég hvet börnin mín ekki lengur til að búa og byggja sína framtíð á Íslandi.

María Kristjánsdóttir, Hafnarfirði.