Gott handverk „Ég vil frekar leggja áherslu á gott handverk en að fara út í fjöldaframleiðslu,“ segir Sunneva um verkefnin sín.
Gott handverk „Ég vil frekar leggja áherslu á gott handverk en að fara út í fjöldaframleiðslu,“ segir Sunneva um verkefnin sín. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Sigríður Sunneva Vigfúsdóttir hefur að undanförnu verið að vinna úr lambaskinni * Hún segir með ólíkindum hvað hægt sé að gera þetta einfalda hráefni glæsilegt

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

Ég var oft búin að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki að hanna kjóla úr lambskinninu – litla kjóla með rykkingum eða jafnvel púffermum. Enda er lambskinnið okkar svo þunnt og meðfærilegt að það hreinlega kallar á slíkt,“ segir Sigríður Sunneva Vigfúsdóttir, sem er nú að hleypa nýju lífi í fyrirtæki sitt Sunneva Design eftir langt og gott barneignarfrí.

Útkoman er óvenjuleg nálgun við mokkajakkann. „Það er búið að vera mikið um rykkingar í erlendum tískublöðum og fyrir tveimur árum tók ég að mér að gera sérpantaða flík með miklum rykktum jaðri úr laxaroði sem kom virkilega skemmtilega út. Það má því segja að þessir nýju mokkajakkar séu framhald á þeirri vinnu – þetta er eins konar barokk-útgáfa af mokkajakkanum.“

Hefur Sunneva látið klippa ull gærunnar óvenju stutt og nýtur þess að leika sér að hráefninu með því að búa til bæði föll og rykkingar. „Það er eiginlega með ólíkindum hvað hægt er að gera þetta einfalda, og í grunninn grófa hráefni, glæsilegt.“

Áhersla á gott handverk

Leður og skinn hefur alltaf heillað Sunnevu, sem lagði stund á hönnunarnám við Polimoda skólann í Flórens á árunum 1988-1991, en mikið er lagt upp úr hönnun og framleiðslu í skólanum sem tengdur er Fashion Institute of Technology í New York. Áður var hún þó búin að vera viðloðandi skinnaiðnaðinn heima á Akureyri þar sem hún er fædd og uppalin.

Að námi loknu fékk ég vinnu hjá fyrirtækinu DIBI í Toscana, en það var þá stærsti viðskiptavinur Íslensks skinnaiðnaðar og þeir voru að framleiða fyrir stór merki á borð við Hugo Boss og Trussardi. Eftir að hún kom heim aftur til Íslands 1993 kom henni hins vegar á óvart hversu fáar saumastofur hér heima unnu með skinnið. „Mér fannst ég hreinlega ekki geta horft upp á að skinnið væri meira og minna allt selt úr landi og að fæstir vissu af gæðum íslensku lambsgærunnar,“ segir Sunneva sem keypti í kjölfarið sínar eigin vélar og stofnaði fyrirtækið Sunneva Design.

Eftir áðurnefnt barnseignarfrí er hún nú farin að bretta upp ermarnar á ný og hefur fengið góð viðbrögð við nýju línunni, sem hún hefur m.a. verið að selja í Kraum. „Ég vil frekar leggja áherslu á að gera gott handverk, en að fara út í fjöldaframleiðslu,“ segir Sunneva. Áður en dæturnar komu í heiminn var hún að selja hönnun sína til Sviss, Svíþjóðar og Bretlands og hyggst hún nú kynna sér þá markaði á nýjan leik, en skinnið fær hún frá Sjávarleðri á Sauðárkróki.

„Mér finnst ég stundum vera eins og skúlptúristi. Lambskinnið er einfaldlega þannig hráefni að maður fær mikla tilfinningu fyrir því í höndunum. Þannig byrja ég jafnvel með eina hugmynd en hráefnið mótar flíkina að öðru. Ég er líka mikið náttúrubarn í mér og stundum finnst mér skinnavinnslan einfaldlega verða óður til Íslands.“