Röddin Jón Atli Jónasson leikritaskáld og þulur.
Röddin Jón Atli Jónasson leikritaskáld og þulur.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is „ÞETTA er alveg svakalegt, maður getur eiginlega ekki kveikt á sjónvarpinu,“ segir leikskáldið Jón Atli Jónasson, en rödd hans hljómar oftar í eyrum landsmanna þessa dagana en raddir margra annarra.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„ÞETTA er alveg svakalegt, maður getur eiginlega ekki kveikt á sjónvarpinu,“ segir leikskáldið Jón Atli Jónasson, en rödd hans hljómar oftar í eyrum landsmanna þessa dagana en raddir margra annarra. Ástæðan er sú að Jón Atli les inn á allar sjónvarpsauglýsingar Forlagsins sem birtast í nánast öllum auglýsingatímum þessa dagana. „Þegar við lásum þetta inn héldum við að þetta myndi bara drukkna í einhverju Range Rover-auglýsingaflóði. En það var öðru nær,“ segir Jón Atli sem telur að hann hafi lesið inn á tíu til tuttugu auglýsingar fyrir þessi jól. Aðspurður segist hann vissulega lenda í því að fólk spyrji hann hvar það hafi heyrt þessa rödd. „En ég er oftast búinn að forða mér áður en það leggur saman tvo og tvo,“ segir Jón Atli og hlær.

Hann telur þó ekkert of mikið af bókaauglýsingum fyrir þessi jól, enda séu þetta góð bókajól. „Ég er í þeirri undarlegu stöðu að vera búinn að lesa nánast allt sem er að koma út í bæði reyfurum og skáldsögum. Mér finnst þetta óvenjugóð bókajól, hvort sem maður lítur til reyfara eða annarra bókmennta - t.d. Algleymi eftir Hermann Stefánsson, Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson og Konur eftir Steinar Braga. En svo eru fleiri fínar bækur, til dæmis Menn sem hata konur , Fundið fé og Gomorra – þessi sannsögulega um ítölsku mafíuna. Hún er nú eiginlega bara skyldulesning í þessu samfélagi sem við búum í í dag, enda fjallar hún um glæpamenn sem líta fyrst og fremst á sig sem viðskiptamenn.“