Líklegir Leikmenn Manchester United á æfingu í Tókíó þar sem flestir reikna með því að þeir tryggi sér sigur í heimsbikarkeppni félagsliða.
Líklegir Leikmenn Manchester United á æfingu í Tókíó þar sem flestir reikna með því að þeir tryggi sér sigur í heimsbikarkeppni félagsliða. — Reuters
ENGLANDS- og Evrópumeistarar Manchester United eru komnir til Japans þar sem þeir leika til úrslita um heimsbikar félagsliða í knattspyrnu. Þar mætast meistaralið heimsálfanna og við fyrstu sýn virðist brautin bein fyrir Alex Ferguson og hans menn.

ENGLANDS- og Evrópumeistarar Manchester United eru komnir til Japans þar sem þeir leika til úrslita um heimsbikar félagsliða í knattspyrnu. Þar mætast meistaralið heimsálfanna og við fyrstu sýn virðist brautin bein fyrir Alex Ferguson og hans menn. Þeir leika gegn Asíumeisturunum Gamba Osaka frá Japan á morgun en liðið sem sigrar í þeirri viðureign mætir síðan Pachuca frá Mexíkó eða Deportivo Quito frá Ekvador í úrslitaleiknum í Tókýó á sunnudaginn.

Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is

Keppt hefur verið um heimsbikarinn frá 1960 og til skamms tíma var um einfalda keppni á milli meistaraliða Evrópu og Suður-Ameríku að ræða. Fyrstu 20 árin var leikið heima og heiman, frá 1980 var leikinn einn leikur um titilinn í Tókýó, en frá 2005 hafa meistaralið annarra heimsálfa fengið að vera með og keppnin orðið að litlu móti í umsjón FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Það hefur þó engu breytt að því leyti að hún hefur alltaf endað með hefðbundnum úrslitaleik milli fremstu liða Evrópu og Suður-Ameríku. Þau fara jafnan beint í fjögurra liða úrslit og mæta þá tveimur þeim liðum sem eftir standa. Nú eru það Norður- og Mið-Ameríkumeistarar Pachuca og Asíumeistararnir Gamba Osaka. Meistaralið Afríku og Eyjaálfu eru fallin úr keppni. Deportivo Quito og Pachuca mætast í dag og leikur Manchester United og Gamba Osaka fer fram á morgun. Leikið er klukkan 10.30 að morgni að okkar tíma en þá er klukkan 19.30 að kvöldi í Japan.

Man.Utd eina enska liðið sem hefur unnið heimsbikarinn

Enskt félag hefur aðeins einu sinni hampað heimsbikar félagsliða og það var einmitt Manchester United, með Ferguson í brúnni, sem náði þeim áfanga árið 1999 með því að sigra Palmeiras frá Brasilíu, 1:0, í úrslitaleik í Tókýó. Áður hafði United beðið lægri hlut þegar liðið tók þátt fyrst enskra liða árið 1968, þá fyrir Estudiantes frá Argentínu, 1:2 samanlagt. Liverpool hefur þrívegis tapað úrslitaleik keppninnar og bæði Nottingham Forest og Aston Villa lutu í gras á sínum tíma þegar þau fóru í keppnina sem Evrópumeistarar.

Sagan er ekki hliðholl Evrópumeisturum í heimsbikarnum. Meistaralið Suður-Ameríku voru mun sigursælli en þau evrópsku á árum áður. Þau unnu sex sinnum á fyrstu níu árunum og þrátt fyrir nokkur umskipti í seinni tíð og níu sigra Evrópumeistaranna síðustu þrettán árin er staðan 24:22, Suður-Ameríku í hag. Manchester United fær það verkefni að minnka muninn fyrir Evrópu og satt best að segja kæmi verulega á óvart ef það tækist ekki.

Argentína og AC Milan með flesta sigra

Ítalir hafa átta sinnum fært Evrópu heimsbikarinn, þar af AC Milan fjórum sinnum. Spánverjar hafa sigrað fjórum sinnum, þar af Real Madrid þrisvar, og Hollendingar og Þjóðverjar hafa sigrað í þrígang hvor þjóð.

Af hálfu Suður-Ameríku hafa argentínsk lið sigrað níu sinnum, brasilísk átta sinnum, lið frá Úrúgvæ sex sinnum og einu sinni hefur lið frá Paragvæ staðið uppi sem heimsbikarmeistari. Sao Paulo frá Brasilíu og Boca Juniors frá Argentínu hafa sigrað oftast, þrisvar hvort lið.

Park þekkir best til í Japan

Park Ji-sung, suðurkóreski leikmaðurinn hjá Manchester United, þekkir vel til mótherja liðsins þar sem hann lék í þrjú ár í Japan áður en hann hélt til Evrópu. „Asískur fótbolti hefur tekið miklum framförum og við eigum erfiðan leik fyrir höndum. Við höfum spilað mikið í desember og eigum langt ferðalag að baki, auk níu tíma mismunar. En við höfum reynslu af slíku og veðrið er svipað í Japan og Englandi svo vonandi tekst okkur að sýna það sem við er búist af okkur sem Englands- og Evrópumeisturum,“ sagði Park á vef FIFA í gær.

Í hnotskurn
» Suður-Ameríkumeistararnir Deportivo Quito frá Ekvador mæta Norður- og Mið-Ameríkumeisturum Pachuca frá Mexíkó í undanúrslitum í dag.
» Evrópumeistarar Manchester United mæta Asíumeisturum Gamba Osaka á morgun.
» Sigurliðin leika til úrslita á sunnudag, og tapliðin um þriðja sætið.