Benedikt Guðmundsson
Benedikt Guðmundsson
Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is „ÉG hefði viljað fá heimaleik, það var það eina sem ég óskaði mér,“ sagði Ari Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Hamars, eftir að dregið hafði verið í 8-liða úrslit Subwaybikarsins í körfuknattleik í...

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„ÉG hefði viljað fá heimaleik, það var það eina sem ég óskaði mér,“ sagði Ari Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Hamars, eftir að dregið hafði verið í 8-liða úrslit Subwaybikarsins í körfuknattleik í gær. Þar dróst lið Ara á móti Keflvíkingum og verður leikið í Keflavík.

„Mér varð ekki að ósk minni hvað það varðar og ekki heldur að fá Heklu því það hefði verið frábært að fá Suðurlandsslag,“ sagði Ari.

Hann sagðist samt hlakka til. „Þetta er verðugt verkefni, að mæta Keflavík á útivelli, því það er alltaf erfitt að spila í Keflavík. En það er nú einu sinni svo að ætli maður sér alla leið þá þarf að vinna alla mótherja sína. Það hlaut að koma að því að við lentum á einhverju stóru liði og það er alveg eins gott að byrja á því.“

Svo skemmtilega vill til að Keflavík og Hamar mætast í Keflavík í deildinni miðvikudaginn 14. janúar en bikarleikirnir verða 11. og 12. janúar þanngi að það er stutt á milli leikja hjá þeim.

Aðrir leikir hjá konunum eru Skallagrímur – Hekla, Haukar – KR og Fjölnir – Valur.

Hjá körlunum lendir Keflavík líka í stórleik því þeir fara í DHL-höllina og mæta KR. Njarðvík fær Hauka, Grindavík tekur á móti ÍR og ÍBV eða Stjarnan mæta Val.

„Ég vildi bara fá heimaleik,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sem varð að ósk sinni. Hann sagði líka áður en dregið var að hann vildi heimaleik og Grindavík eða Keflavík væri bara fínt. Honum varð að ósk sinni því KR tekur á móti Keflavík.

„Það verður stórleikur eins og venjulega þegar þessi lið mætast og það verður allt lagt undir þegar að þessu kemur. Við setjum auðvitað stefnuna á að sigra í öllum mótum vetrarins og verðum því að vinna Keflavík í bikarnum,“ sagði Benedikt en Keflavík tekur síðan á móti KR-ingum í Iceland Express-deild karla fimmtudaginn eftir bikarleikinn þannig að það eru tveir stórleikir hjá þessum félögum með stuttu millibili.