Reynir Traustason
Reynir Traustason
REYNIR Traustason, ritstjóri DV, hyggst sitja áfram á stóli ritstjóra enda hafi hann hlotið stuðning til þess hjá útgefanda blaðsins, Birtíngi.

REYNIR Traustason, ritstjóri DV, hyggst sitja áfram á stóli ritstjóra enda hafi hann hlotið stuðning til þess hjá útgefanda blaðsins, Birtíngi.

Í yfirlýsingu sem Reynir sendi frá sér í gærkvöldi segir hann að upptaka sem birt var í Kastljósi hafi verið gerð án sinnar vitundar.

„Tveggja manna trúnaðarsamtal er varhugaverð heimild. Í slíku samtali tala menn gjarnan opinskátt og segja jafnvel meira en þeir meina eða vilja sagt hafa. Í þessu einkasamtali við starfsmanninn viðhafði ég óvarleg ummæli um nafngreinda einstaklinga í hita augnabliksins. Ég harma framsetningu þeirra og bið viðkomandi afsökunar. Ég fékk ekki við neitt ráðið. Þessi ummæli eru því ekki aðeins meiðandi fyrir viðkomandi heldur einnig fyrir mig persónulega. Hver og einn á rétt á leiðréttingu orða sinna. Kastljós virti slík sjónarmið að vettugi. Hér var því um að ræða alvarlegt brot gegn persónufriðhelgi minni. Dagblaðið DV hefur um margra ára skeið átt sér ýmsa óvildarmenn, sem margir hverjir hafa opinberlega talað gegn blaðinu og viljað það burt af fjölmiðlamarkaði. Blaðið hefur fram að þessu staðið allt slíkt af sér og hvergi dregið undan í umfjöllun sinni ef mál er talið upplýsandi,“ segir í yfirlýsingu Reynis Traustasonar.

Starfsmenn DV funduðu um málið í gær, með og án ritstjóranna tveggja, Reynis Traustasonar og Jóns Trausta Reynissonar. Ákveðið var að láta daginn líða og sjá hver þróunin yrði.

Undir kvöld sagði Valur Grettisson blaðamaður upp störfum á DV. Valur segir ástæðu uppsagnarinnar þá að upp sé komið umhverfi sem hann hvorki geti né vilji starfa við.

Yfirlýsingu Reynis Traustasonar má lesa í heild á www.mbl.is.