Jólastemning Þær voru einbeittar við skreytingu lurkanna, systurnar Ingunn og Rakel.
Jólastemning Þær voru einbeittar við skreytingu lurkanna, systurnar Ingunn og Rakel. — Morgunblaðið/Kristinn
ÞÆR vönduðu sig mikið systurnar Ingunn Rut og Rakel Rut Sigurðardætur þar sem þær kvöld eitt á aðventunni bjuggu til jólakertastjaka.

ÞÆR vönduðu sig mikið systurnar Ingunn Rut og Rakel Rut Sigurðardætur þar sem þær kvöld eitt á aðventunni bjuggu til jólakertastjaka. Grunnefnið voru lurkar eða bútar af breiðum trjágreinum sem þeim áskotnuðust vegna þess að Reykjavíkurborg hafði skikkað heimilismeðlimi til að láta taka verulega mikið af gömlu furutré í garðinum sem var orðið svo stórt að það teygði sig langt yfir lóðamörk.

En þessi lurka-kertastjaka-gerð er ekki bara eitthvert jólaföndur, heldur er með þessu verið að tengja við gamlan tíma og gamla hefð.

„Ég man þegar amma mín og nafna gerði svona lurka með okkur barnabörnunum sínum þegar ég var lítil stelpa í sveitinni,“ segir Elín Margrét Hárlaugsdóttir móðir þeirra systra. „Hún hafði mikið fyrir þessu, fór langa leið gangandi til að saga birkilurka af trjám handa okkur. Og svo tók hún utan af þeim börkinn og pússaði þá og lakkaði hvíta. Síðan sáum við krakkarnir um að setja allskonar skraut á þá en mesta fúttið var það sem við kölluðum alabastur en var í raun sparsl og amma setti á lurkinn til að festa kertið og svo áttum við að stinga greinum og öðru dóti þar í. Svo harðnaði þetta og nýtt kerti var sett í stæðið um hver jól. Móðir mín dregur þessa lurka sem við krakkarnir gerðum, alltaf fram á jólum heima hjá sér. Mér finnst gaman að gera svona lurka með stelpunum mínum, alveg eins og langamma þeirra gerði með mér þegar ég var stelpa. En ég er reyndar ekki eins dugleg og nafna mín, ég nennti ekki að standa í því að taka börkinn af þeim, pússa þá og lakka.“