Eftirsóttur Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, er eftirsóttur eftir að hafa náð framúrskarandi árangri með íslenska landsliðið. Líklegt er að hann skrifi undir samning við erlent félagslið, annaðhvort í Danmörku eða Þýskalandi, áður en nýtt ár rennur upp.
Eftirsóttur Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, er eftirsóttur eftir að hafa náð framúrskarandi árangri með íslenska landsliðið. Líklegt er að hann skrifi undir samning við erlent félagslið, annaðhvort í Danmörku eða Þýskalandi, áður en nýtt ár rennur upp. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
GUÐMUNDUR Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, gæti orðið næsti þjálfari hins fornfræga þýska handknattleiksliðs Grosswallstadt, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

GUÐMUNDUR Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, gæti orðið næsti þjálfari hins fornfræga þýska handknattleiksliðs Grosswallstadt, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Forráðamenn Grosswallstadt leita nú að nýjum þjálfara sem gæti tekið við næsta sumar og mun Guðmundur vera mjög ofarlega á óskalista forráðamanna félagsins. „Það er best að segja sem minnst á þessari stundu,“ sagði Guðmundur við Morgunblaðið í gær og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Guðmundur staðfesti þó að Grosswallstadt hefði sýnt sér áhuga á sama hátt og forráðamenn danska liðsins GOG hafa gert og greint var frá í byrjun vikunnar. Þá hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að GWD Minden hafi einnig spurst fyrir um Guðmund en ósennilegt er talið að það hafi náð lengra.

Með Grosswallstadt leikur landsliðsmaðurinn Einar Hólmgeirsson og auk þess hafa Alexander Petersson, Snorri Steinn Guðjónsson og Júlíus Jónasson leikið þar, svo nokkurra íslenska landsliðsmanna sem leikið hafa með Grosswallstadt í gegnum tíðina sé getið.

Núverandi þjálfari Grosswallstadt, Michael Roth, hefur verið við stjórnvölinn síðustu þrjú ár. Hann tók við af hinum þekkta þjálfara Peter Meisinga sem lengi var þjálfari og hafði áður verið leikmaður liðsins.

Roth hefur ekki náð viðunandi árangri, síst á þessari leiktíð en fyrir hana var liðið styrkt nokkuð og stefnan tekin á að vera í hópi átta efstu liða deildarinnar. Það hefur farið á annan veg en óskað var og er Grosswallstadt í 11. sæti með 12 stig að loknum 15 leikjum. Roth var tilkynnt í síðustu viku að samningur hans, sem rennur út í vor, yrði ekki framlengdur.

Grosswallstadt er eitt þekktasta og rótgrónasta handknattleikslið Þýskalands. Blómaskeið þess var áttundi áratugurinn og fram á miðjan níundan áratuginn. Á þeim tíma varð Grosswallstadt sjö sinnum þýskur meistari, fjórum sinnum bikarmeistari og var í úrslitaleik Evrópukeppninnar 1980.

Viggó orðaður við starfið

Viggó Sigurðsson var orðaður við þjálfarastarfið hjá Grosswallstadt í vikunni. Hann sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki vera inni í myndinni hjá forráðamönnum félagsins um þessar mundir.

Guðmundur er samningsbundinn Handknattleikssambandi Íslands til ársins 2012. Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við Morgunblaðið í gær að hafi félög áhuga á að nýta sér krafta Guðmundar þurfi þau að hafa samband við HSÍ áður samningar verði frágengnir.

HSÍ hefur ekkert heyrt

„Það kemur ekki á óvart að erlend félög hafi áhuga á Guðmundi þar sem hann er frábær þjálfari. HSÍ mun ekki leggja stein í götu Guðmundar vilji hann taka að sér þjálfun félagsliða í Evrópu en okkur finnst ekkert óeðlilegt að við séum hafðir með í ráðum þar sem Guðmundur er samningsbundinn HSÍ,“ sagði Einar sem telur ekkert mæla gegn því að landsliðsþjálfari sé jafnframt þjálfari félagsliðs á meginlandi Evrópu.

Í hnotskurn
» Grosswallstadt er eitt rótgrónasta og þekktasta handknattleikslið Þýskalands.
» Michael Roth, þjálfari liðsins, hættir í vor.
» Guðmundur Þórður þekkir til í Þýskalandi þar sem hann þjálfaði Bayer Dormagen frá 1999 til 2001.