Sæunn Stefánsdóttir
Sæunn Stefánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.is SIV Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti því yfir í gær, á 92 ára afmæli flokksins, að hún hygðist gefa kost á sér til varaformennsku í flokknum.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@mbl.is

SIV Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti því yfir í gær, á 92 ára afmæli flokksins, að hún hygðist gefa kost á sér til varaformennsku í flokknum. Ný forysta verður kjörin á flokksþinginu þann 16. til 18. janúar næstkomandi.

Sæunn Stefánsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram í embætti ritara Framsóknarflokksins. Í viðtali við mbl.is kvaðst Sæunn hafa hlutverki að gegna þótt hún hefði setið í flokksstjórninni þar sem hún hefði aldrei setið í ríkisstjórn og ávallt lagt áherslu á breytingar í flokknum.

Hún segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að framsóknarmenn hafi verið of linir í samvinnu við aðra flokka og ekki haldið nægilega fram stefnu sinni.

Undir þetta tekur Siv Friðleifsdóttir á vissan hátt í yfirlýsingu sinni. Hún segir ástæðurnar fyrir því að Framsóknarflokknum hafi ekki tekist að vinna á ný það fylgi sem tapast hefði í síðustu alþingiskosningum vera fleiri en eina.

„Í tólf ára stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum tókst flokknum ekki nægjanlega vel að leggja áherslu á þann hugmyndafræðilega mun sem er á þessum flokkum. Síðustu árin var frjálshyggjan orðin sá gullkálfur sem hluti þjóðarinnar dansaði í kringum ýmist viljugur eða óviljugur. Afleiðingarnar blasa nú hvarvetna við. Innbyrðis átök hafa einnig reynst flokknum dýrkeypt. Menn hljóta að læra af þeim mistökum.“

Auk Sivjar hefur Birkir Jón Jónsson alþingismaður gefið kost á sér til varaformennsku í Framsóknarflokknum.

Þrír hafa gefið kost á sér í embætti formanns, Jón Vigfús Guðjónsson sjómaður, Höskuldur Þórhallsson alþingismaður og Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi.

Það var á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um miðjan nóvember sem ákveðið var að flýta flokksþingi um tvo mánuði. Hart var sótt að forystu flokksins á miðstjórnarfundinum og voru margir efins um að flokkurinn gæti tvöfaldað fylgi sitt í næstu kosningum, eins og fyrrverandi formaður flokksins, Guðni Ágústsson, kvaðst trúa, nema skipt væri um menn í brúnni.