Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.is „VIÐ höfum átt í erfiðleikum eins og önnur fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

„VIÐ höfum átt í erfiðleikum eins og önnur fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Kostnaður bæjarins vegna lóðaskila hefur verið þung byrði í erfiðu árferði,“ segir Gerður Guðjónsdóttir, fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Erfiðleikar í efnhagslífi hér á landi hafa komið illa niður á Hafnarfjarðarbæ. Lán í erlendri mynt, sem bærinn tók á vormánuðum þessa árs, hafa hækkað mikið vegna veikingar krónunnar.

Lánið hefur snarhækkað

Lánið var upp á þrjá milljarða króna þegar það var tekið en skuldin nemur nú á sjötta milljarð. Þá hefur lóðum sem úthlutað var verið skilað í miklum mæli á haustmánuðum. Bærinn hefur þurft að endurgreiða þeim sem skila lóðum til bæjarins, sem þeir höfðu áður greitt fyrir, á þriðja milljarð króna. Kostnaðurinn hefur meðal annars verið íþyngjandi í ljósi þess að samningsbundið er að bærinn þurfi að greiða þeim sem skila lóðum fullt verð og verðbætur að auki.

Drög að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár voru lögð fyrir bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar í gær. Gert er ráð fyrir töluverðri endurskipulagningu og niðurskurði til þess að mæta erfiðu rekstrarumhverfi og íþyngjandi skuldum.

Gerður vildi ekki tjá sig um einstaka þætti í fjárhagsáætlun bæjarins í ljósi þess að hún er enn til umfjöllunar hjá bæjarstjórn og hefur ekki verið samþykkt.

Gerður sagði lítið fjármagnsflæði hjá bænum valda nokkrum erfiðleikum. „Fjármagnsflæðið hefur ekki verið eins og það á að sér að vera hjá okkur að undanförnu. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að ekki hefur tekist að borga alla reikninga á réttum tíma, en þeir eru þó alltaf greiddir að lokum.“

Gerður segir að rekstrarstaða margra sveitarfélaga í landinu sé erfið. „Staðan er orðin íþyngjandi fyrir sveitarfélög. Það gefur auga leið. Við munum þurfa að fara út í lántöku til þess að bregðast við stöðunni á næstu misserum. Aðgengi að fjármagni hefur ekki verið gott upp á síðkastið þannig að áform um lántöku eru háð nokkurri óvissu. Ný fjárhagsáætlun verður lögð fram á bæjarstjórnarfundi á fimmtudag (á morgun). Hún tekur mið af rekstraraðstæðum sem nú eru fyrir hendi.“

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu gerir Seðlabanki Íslands ráð fyrir því tekjur ríkisins og sveitarfélaga muni dragast saman um 15,5 prósent á næsta ári. Fyrirsjáanlegt er að útgjöld muni hækka umtalsvert umfram fyrri áætlanir. Meðal annars vegna mikils fjármagnskostnaðar.

Aukinn kostnaður lendir á íbúunum

Sveitarfélög munu fá heimild til þess að hækka útsvar um 0,25 prósent. Úr 13,03 prósentum í 13,28 prósent. Mörg sveitarfélög fullnýta heimildina við innheimtu útsvarstekna og má gera ráð fyrir að mörg þeirra muni gera það áfram í ljósi rýmkunar á heimildinni. Hækkun heimildarinnar þýðir auknar tekjur fyrir sveitarfélögin um tvo milljarða króna.

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu hafa kjörnir fulltrúar í sveitarfélögum landsins rætt saman um það á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga að allt kapp verði lagt á að verja grunnþjónustuna sem sveitarfélög þurfa að sinna. Það er skólaþjónusta upp að framhaldsskólastigi, félagsþjónusta, sorphirða og þess háttar. Auk þess hafa flest sveitarfélög litið á rekstur íþróttamannavirkja sem grunnþjónustu þótt lög geri ekki sérstaklega ráð fyrir honum sem grunnþjónustu. Mörg sveitarfélög hafa varið miklu fé í að byggja upp mannvirki fyrir starfsemi íþróttafélaga.