BJÖRGVIN G.

BJÖRGVIN G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðhera stagast á því að enginn hafi varað þá við bankakreppunni og Össur gefur í skyn að sökin liggi að stórum hluta hjá Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og því þurfi að losna við hann og það er auðvitað gott fyrir samfylkingarráðherra að finna sökudólg og hengja hann til að fá útrás fyrir reiðina í samfélaginu. – En er það svo að Davíð beri sök á því að ríkisstjórnin virðist ekki hafa haft nokkurn pata af stöðu bankanna? Nei, síður en svo, sökin er fyrst og fremst ráðherranna sjálfra.

Jón Sigurðsson, formaður Fjármálaeftirlitsins, segir að bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi varað ríkisstjórnina við hættumerkjum. Fyrst Össur heyrði ekki varnaðarorð Davíðs Oddssonar er kannski ekki von að hann hafi heldur heyrt varnaðarorð Jóns Sigurðssonar og Fjármálaeftirlitsins. – Þeir félagar Björgvin og Össur hlustuðu heldur ekki á varnaðarorð stjórnarandstöðunnar á þingi. Ekki heldur á skrif Þorvaldar Gylfasonar og Ragnars Önundarsonar. Þeir tóku heldur ekki mark á alþjóðlegu matsfyrirtækjunum sem snarhækkuðu vaxtaálag á íslensku bankana. – Svo koma þessir menn og segja að „enginn hafi varað þá við og að halda að almenningur trúi þeim. – En það er ekki bara bankakreppa sem við er að glíma. Húsnæðiskreppan er ekki minna mál og af hverju stafar hún, hún byrjaði með því að bankarnir fóru inn á húsnæðismarkaðinn og buðu hærra lánshlutfall og hærri lán en áður höfðu boðist.

Þá sem muna eitthvað aftur í tímann rámar kannski í stuðning samfylkingarþingmanna við þessi áform. Einhverjir muna kannski eftir því að Seðlabankinn og Davíð Oddsson vöruðu við svo háu lánshlutfalli en á það var ekki hlustað. Þessi háu lán gerðu það að verkum að húsnæðisverð snarhækkaði og fjölmargir vildu hagnast á því að byggja á svipuðum kostnaði og áður en selja á mun hærra verði. Því var byggt langt umfram þörf og eftir standa fjölmargar fasteignir sem ekki seljast og verðið snarfellur alveg eins og Seðlabankinn hafði spáð. – Er við slíkar aðstæður eðlilegt að krefjast afsagnar bankastjóra Seðlabankans, mannanna sem vöruðu ítrekað við húsnæðisbólunni, ríkisfjármálum og vanda bankanna eða er eðlilegra að aðrir segi af sér? Hvað um ráðherrana sem „ enginn varaði við?“ – Þegar Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingar, var spurð um ábyrgð viðskiptaráðherra svaraði hún með nokkrum þjósti: „Hvar varð viðskiptaráðherra á? – Hvar svaf hann á verðinum? “

Til að taka af allan vafa hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn, nema að ég kaus einu sinni Eggert Haukdal í sérframboði á Suðurlandi, þess utan hef ég frekar verið á vinstri vængnum.

Heiðar Ragnarsson er matreiðslumaður og heilsuráðgjafi.