Í SJÓNVARPSFRÉTTUM RÚV um kvöldið 11.12. ræddi Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um samningaumleitanir 33 sjávarútvegsfyrirtækja við Landsbanka Íslands, skilanefnd væntanlega, um niðurfellingu á hluta skulda umræddra fyrirtækja.

Í SJÓNVARPSFRÉTTUM RÚV um kvöldið 11.12. ræddi Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um samningaumleitanir 33 sjávarútvegsfyrirtækja við Landsbanka Íslands, skilanefnd væntanlega, um niðurfellingu á hluta skulda umræddra fyrirtækja. – Svo virtist, sem um væri að ræða einhvers konar framvirka útreikninga á gengi (og þá væntanlegum afla í náinni framtíð) og veiðum og þá væntanlega tekjum fyrirtækjanna, eða borgunargetu. – Hér væri þá um að ræða tilraunir til að festa að einhverju marki í sessi núverandi kvótahlutdeild hverrar útgerðar til framtíðar um einhver ár. Með öðrum orðum, að núverandi skuldir útgerðanna við Landsbankann greiðist á einhvern hátt með hliðsjón af væntanlegum afla, sem væri háður núverandi aflamarkshlutdeild fyrirtækjanna og framhaldi þar á.

Það er á allra vitorði að háværar kröfur eru nú um land allt um breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Þess vegna leyfir ritari sér að bera fram spurningar til Fjármálaeftirlitsins varðandi ofangreind atriði.

Hefur skilanefnd Landsbanka Íslands heimild til að semja nú um greiðslur skulda, eða niðurfellingu á einhverjum hluta þeirra, við bankann á þann veg, að framreikningar á aflaverðmæti útgerðanna séu teknar inn í útreikninga á greiðslum eða greiðslugetu?

Ef svo er þá er verið að taka með í útreikninga niðurstöður í miklum pólitískum deilum í landinu. Er Fjármálaeftirlitinu þetta ljóst og er einhver hætta á að svo sé?

Getur einnig verið um að ræða hliðstæð mál í hinum ríkisbönkunum tveimur?

Ritari óskar eftir því að svör birtist opinberlega í Morgunblaðinu eða öðrum sambærilegum fréttamiðli á landsvísu.

Virðingarfyllst.

Jónas Bjarnason efnaverkfræðingur.