Árið næstum liðið Fjármálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2008. Hann og þingmenn stjórnarandstöðunnar voru sammála um að það kæmi óþarflega seint fram.

Árið næstum liðið

Fjármálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2008. Hann og þingmenn stjórnarandstöðunnar voru sammála um að það kæmi óþarflega seint fram. Þeir síðarnefndu höfðu einnig áhyggjur af því að tekjur væru vanáætlaðar og sögðu litlar breytingar vera frá því sem fram kom í haust, fyrir bankahrunið . Jón Bjarnason benti á að fé sem hefur verið veitt til bankanna væri ekki tilgreint í frumvarpinu. Árni M. Mathiesen sagði hins vegar að verið væri að vinna þessi gögn og skoða hvort þau eigi heima í fjáraukalögum fyrir þetta ár eða fjárlögum fyrir það næsta. Gögnin kæmu í þessari viku.

Grínleikur en ekki ábyrg vinnubrögð

Stjórnarandstæðingar sátu hjá í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið í gær en því hefur verið vísað til nefndar og kemur síðan til þriðju umræðu . Vinnan við fjárlagagerðina var harðlega gagnrýnd og sagði Magnús Stefánsson , Framsókn, fremur vera um grínleik að ræða en ábyrg vinnubrögð. Meðal þess sem stjórnarandstaðan gagnrýndi var niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og mennta- og menningarmálum og að dregið skuli úr framlögum til þróunarmála á sama tíma og Varnarmálastofnun fái mikil framlög.