Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.is Í GÆR voru 8.935 manns á atvinnuleysisskrá samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Það er um 5,4 prósenta atvinnuleysi. Skráð atvinnuleysi í nóvember var um 3,3 prósent en að meðaltali voru þá um 5.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

Í GÆR voru 8.935 manns á atvinnuleysisskrá samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Það er um 5,4 prósenta atvinnuleysi. Skráð atvinnuleysi í nóvember var um 3,3 prósent en að meðaltali voru þá um 5.445 skráðir atvinnulausir. Atvinnuleysi jókst frá október til nóvember um 75 prósent eða sem nemur 2.339 manns. Á sama tíma í fyrra var atvinnuleysi um 0,8 prósent en um 1.321 var þá skráður atvinnulaus.

Í kjölfar efnahagsþrenginga, þá helst yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi, hefur staða fyrirtækja í landinu versnað snögglega. Sérstaklega á þetta við um fyrirtæki í byggingariðnaði en þau hafa sagt upp starfsmönnum í stórum stíl að undanförnu. Þetta á einnig við um aðrar stéttir.

Jóhanna Harpa Árnadóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands, segir marga verkfræðinga vera farna að horfa út fyrir landsteinana eftir vinnu. Tugir, ef ekki hundruð, verkfræðinga hafa fengið uppsagnarbréf að undanförnu. „Þau áföll sem gengið hafa yfir íslenskt atvinnulíf að undanförnu bitna harkalega á verk- og tæknifræðingum. Við finnum svo sannarlega fyrir því. Hins vegar segir það sína sögu um hæfni íslenskra verk- og tæknifræðinga að það hefur verið leitað til okkar frá erlendum fyrirtækjum sem vilja fá þá til starfa.“

Verkfræðingafélagið rekur húsnæði á Engjateigi 9 með Tæknifræðingafélagi Íslands og Stéttarfélagi verkfræðinga en félagsmenn í þessum félögum eru um 3.000. Jóhanna segir þá hafa lýst þungum áhyggjum af stöðu mála í efnahagslífinu að undanförnu. „Það er mikil óvissa framundan og vonandi tekst að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.“

Í hnotskurn
» Um 5.571 maður á höfuðborgarsvæðinu er nú á atvinnuleysisskrá. Er skiptingin þannig að 3.605 eru karlar og 1.966 konur.
» Á Suðurnesjum eru 1.254 skráðir atvinnulausir en ekkert svæði á landinu er með hlutfallslega jafnmikið atvinnuleysi og Suðurnesin.
» Hremmingar í efnahagslífinu hafa haft alvarlegri afleiðingar fyrir karla á vinnumarkaði en konur. Samtals eru um 5.575 karlar á atvinnuleysisskrá en 3.360 konur. Margir karlanna eru iðnaðarmenn.