Fjölhæfur Sigurður Ragnar Eyjólfsson er fræðslustjóri KSÍ og þjálfari kvennalandsliðsins sem náði þeim áfanga að komast í úrslit á EM.
Fjölhæfur Sigurður Ragnar Eyjólfsson er fræðslustjóri KSÍ og þjálfari kvennalandsliðsins sem náði þeim áfanga að komast í úrslit á EM. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
UNDANFARIN ár hefur orðið sannkölluð sprenging í menntun knattspyrnuþjálfara hér á landi undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, fræðslustjóra Knattspyrnusambands Íslands.

UNDANFARIN ár hefur orðið sannkölluð sprenging í menntun knattspyrnuþjálfara hér á landi undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, fræðslustjóra Knattspyrnusambands Íslands. Á nítján þjálfaranámskeið sambandsins á árinu sem er að líða mættu 563 þjálfarar og er það um 90% aukning miðað við síðasta ár.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„Það er kannski tvennt sem skýrir þessa aukningu að mestu leyti. Í fyrsta lagi réð KSÍ mig í fullt starf sem fræðslustjóra árið 2002, en áður var Guðni Kjartansson fræðslustjóri og þá var starfshlutfallið rétt um 20%. Um leið og það var ráðinn maður í fullt starf var hægt að sinna þessum þætti miklu betur og bjóða upp á fleiri námskeið. Síðan í framhaldi af þessu var þjálfaramenntunarkerfi okkar tekið í gegn og sótt um að það yrði viðurkennt af UEFA. Þegar það fékkst vildu þjálfarar taka þetta nám hjá okkur.

Í annan stað var tekið upp leyfiskerfið þar sem það er skylda að vera með þjálfaramenntun hjá körlunum í Landsbankadeild karla og 1. deild karla. Þetta kerfi á við um alla flokka hjá körlum. Með tilkomu þessa kerfis mættu enn fleiri á námskeiðin þar sem allir þjálfarar hjá körlum urðu að hafa þetta nám,“ segir Sigurður Ragnar.

Hann sagði að um síðustu áramót hefði verið ráðinn annar maður með honum í fræðslumálin og þá hefði verið hægt að einbeita sér enn frekar að menntun þjálfara.

Á þessu ári voru haldin 19 námskeið á hinum ýmsu stigum og 563 sóttu þessi námskeið og voru allt frá tíu þátttakendum og upp í 60 á námskeiðunum. Sem dæmi um aukninguna sem orðið hefur á síðustu árum má nefna að árið 2000 voru haldin fjögur þjálfaranámskeið og þau sóttu 98 manns.

Til að verða þjálfari í tveimur efstu deildum karla hér á landi þarf viðkomandi að hafa lokið við þjálfaragráðu A hjá KSÍ. Rétt tæplega 300 manns hafa lokið við KSÍ B-þjálfaragráðuna og 88 hafa lokið við A-gráðuna og eru trúlega vandfundin þau lönd þar sem hlutfall menntaðra þjálfara er hærra.

„B-gráðan okkar samanstendur af KSÍ námskeiðum I, II, III og IV og tveggja klukkustunda skriflegu prófi og þá eru menn komnir með UEFA-B gráðu.

Síðan eru það KSÍ V, VI og VII ásamt skriflegu prófi til að menn fái UEFA-A gráðu. Þessi námskeið er öll hægt að taka hér heima en Pro þjálfaragráðuna þarf að taka erlendis,“ segir Sigurður Ragnar.

Til að hefja þjálfaramenntun hjá KSÍ verða menn að vera orðnir 16 ára. „Við höfum haft það þannig að menn verði að verða 16 ára á árinu til að geta sótt námskeiðin okkar. Ef þjálfari er hins vegar að starfa hjá félagi þá má viðkomandi vera ári yngri ef félagið mælir með viðkomanda,“ segir Sigurður Ragnar.

Ef 16 ára unglingur hefur þjálfaramenntun nú um áramótin gæti hann verið kominn með full réttindi, B og A- gráður á tiltölulega skömmum tíma.

„Menn verða að vera orðnir átján ára til að fá UEFA B-gráðuna. Það er dálítið erfitt að segja hvað það tekur langan tíma að fá full réttindi, frá því menn byrja á KSÍ I námskeiði og þar til búið er að ná A-þjálfaragráðu. Við höldum til dæmis sjötta stigið okkar á tveggja ára fresti þannig að tíminn fer nokkuð eftir því hvernig það stendur af sér.

Það er líka regla hjá UEFA að menn þurfa að þjálfa í eitt ár á milli UEFA B og UEFA A-gráðnanna, þannig að menn verða að koma eitthvað nærri þjálfun og verklega þættinum. Við höfum reynt að flýta fyrir hjá þeim sem eru að þjálfa hjá félögunum til að liðka fyrir. En ef menn fara hefðbundna leið þá tekur það menn tvö til þrjú ár að taka þjálfaranámskeiðin okkar.“

Það eru margir sem koma að því að kenna á námskeiðum hjá KSÍ. „Á þessu ári voru það 32 sem komu að því að kenna á námskeiðunum hjá okkur. Það eru ýmsir sérfræðingar og auðvitað knattspyrnuþjálfarar og það er komin ákveðið form á hver kennir hvað á þessum sjö stigum sem við erum með,“ segir Sigurður Ragnar.

Hvert stig í þjálfaranáminu gefur ákveðin réttindi, en menn geta tekið fyrstu sex stigin án þess að vera þjálfari hjá einhverju liði. „Strangt til tekið er hægt að taka fyrstu sex stigin hjá okkur án þess að vera þjálfari hjá einhverju liði. Ef þú ert til dæmis leikmaður í efstu deild og ert að klára ferilinn getur þú tekið námskeiðin í rólegheitunum og verið kominn upp í stig VI þegar þú hættir og þá áttu ekki mikið eftir til að fá full réttindi,“ segir Sigurður Ragnar.

Hann er einnig landsliðsþjálfari kvenna og sem slíkur hefur hann að sjálfsögðu áhuga á menntun kvenna sem þjálfara. „Reglugerð KSÍ krefst sömu menntunar til að þjálfa konur og karla, en munurinn er að það er ekki leyfiskerfi hjá konunum. Það þýðir til dæmis að það er ekki hægt að beita sektum, vísa liði úr móti og svo framvegis ef skilyrði eru ekki uppfyllt. En við mælum með sömu menntun hjá báðum kynjum.

Kröfurnar sem gerðar eru í leyfiskerfinu eru strangar. Tökum til dæmis Íslandsmeistara FH hjá körlum. Ef þjálfari 6. flokks karla væri ekki með menntun þá fengi FH ekki keppnisleyfi í efstu deild,“ segir Sigurður Ragnar.

Karlar eru í meirihluta meðal þeirra sem sækja þjálfaranámskeiðin. „Okkar reynsla er að 25% þeirra sem koma á námskeiðin eru konur, en eftir því sem hærra dregur þá fækkar þeim. Við gerðum könnun árið 2006, hvað það væru margir starfandi þjálfarar á landinu og þá kom í ljós að þeir voru 575 talsins og af þeim voru 19,5% konur. Konur fara einhverra hluta vegna síður í efri stigin í þjálfaramenntuninni og það á ekki bara við hér á landi, því þetta er líka raunin á hinum Norðurlöndunum,“ segir Sigurður Ragnar.

Menntun skilar sér alltaf

„VIÐ höfum gert heilmikið átak í þessu síðustu árin,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, spurður um skýringar á þeirri aukningu sem orðið hefur á menntun þjálfara hér á landi.

„Þetta skilar miklu betur menntuðum þjálfurum og meiri kunnáttu inn í leikinn. Nú erum við að stíga það skref að koma okkar bestu þjálfurum í Pro þjálfaramenntun og það er bara af hinu góða.

Það er auðvitað mikilvægt að menn fylgist með og þó svo leikurinn sé eins þá eru alltaf nýjar stefnur og nýir straumar og nýjar aðferðir. Eins leggjum við mikla áherslu á að menn þekki þjálfaraaðferðir í yngri flokkum og þar höfum við reyndar staðið mjög framarlega til dæmis í samanburði við hin Norðurlöndin,“ segir Geir.

En hvað með formann KSÍ, hefur hann setið einhver þjálfaranámskeið?

„Já, já, ég er búinn að sitja A, B og C námskeið í þá góðu gömulu daga þegar ég var að þjálfa yngri flokka hjá KR. Það eru sambæileg námskeið og nú heita KSÍ I, II og III. Mig vantar því ekki mikið upp á að fá mér B-gráðuna og aldrei að vita nema maður skelli sér í það einhvern tíma,“ sagði Geir og bætti við: „Það hefur hjálpað mér í mínu starfi að ég hafði sýn á þjálfun og dómgæslu, það er ekki spurning.“

Hann sagði KSÍ líka hafa stigið stórt skref í menntun dómara á síðustu misserum. „Menntun skilar sér alltaf. Hvað dómara varðar þá vantar alltaf dómara í yngri flokkum, en við höfum útskrifað miklu fleiri dómaraefni núna en áður. Síðan erum við að sækja um aðild að dómarasáttmála UEFA, og vonumst til að fá inni þar fljótlega. Þetta er svipað og við gerðum með menntun þjálfara og það er mikilvægt að fá viðurkenningu á að okkar störf séu metin af UEFA.“ skuli@mbl.is